56 ferðir á dag um Keflavíkurflugvöll
– Icelandair langstærst á Keflavíkurflugvelli
Í síðasta mánuði fóru 546.749 farþegar um Flugstöð Leifs Eiríkssonar og aldrei áður hafa þeir verið jafn margir í einum mánuði. Aukningin er 17,8 prósent miðað við sama mánuð í fyrra. Til að koma öllum þessum fjölda til og frá landinu voru að jafnaði farnar 56 ferðir á dag frá Keflavík samkvæmt talningu Túrista.is. Það er aukning um nærri þriðjung frá því í júlí í fyrra.
Tuttugu flugfélög héldu uppi áætlunarflugi héðan þennan metmánuð en þau voru sextán í júlí í fyrra. Vægi þeirra flestra er þó mjög lágt og hlutdeild Icelandair og WOW air hefur nær ekkert breyst frá sama tíma á síðasta ári. Icelandair stóð því áfram fyrir nærri tveimur af hverjum þremur brottförum og sjöunda hver ferð er á vegum WOW air. Leiguflug á vegum ferðaskrifstofa er ekki tekið með í talningu Túrista.
Vægi fimm stærstu flugfélaganna á Keflavíkurflugvelli í júlí 2014:
1. Icelandair: 64,6%
2. Wow Air: 13,8%
3. Easy Jet: 3,5%
4. Airberlin: 3,3%
5. SAS: 2,4%