55 milljónir króna hvíla á menningarsetri að Útskálum
L-listinn í Garði hefur óskað eftir upplýsingum um stöðu Menningarseturs prestssetra að Útskálum og hvort búið sér að skipa nýja stjórn Menningarsetursins. Þá spyr listinn hvort ekki sé tímabært að ljúka þessu verðuga verkefni, enda mjög mikilvægur liður í ferða, safna og menningarmálum Garðs. Þetta kom fram í tillögu listans á síðasta fundi bæjarráðs Garðs
Í svari við tillögunni segir að staða Menningarsetursins að Útskálum sé í höndum Landsbankans, áður Sparisjóðsins í Keflavík. Skuld að upphæð 55 milljónir kr. hvíla á menningarsetrinu og á meðan ekki er leyst úr þeim málum verður ekkert gert.
Upphafleg áform og hugmyndir um menningartengda starfsemi á setrinu eru þess vegna í biðstöðu. Þá aðhefst stjórn Menningarsetursins ekkert á meðan staðan er eins og hún blasir við.
Myndin: Eins og sjá má hafa miklar framkvæmdir staðið yfir að Útskálum sem allar hafa verið stopp síðan í hruninu. Menningarsetrið á að vera í gamla prestbústaðnum að Útskálum. Sökklarnir sem sjást á myndinni eru að byggingum sem áttu að hýsa safnaðarheimili og hótelbyggingu. VF-mynd: Hilmar Bragi