545 ákærur gefnar út
Lögreglan á Suðurnesjum gaf út alls 545 ákærur vegna 593 brota á síðasta ári. Voru ákærur vegna umferðarlagabrota í miklum meirihluta en sérstök athygli er vakin á því að alls var ákært í 172 brotum vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Ákært var í 96 brotum vegna ölvunaraksturs og 67 brotum vegna aksturs án réttinda. Af öðrum brotum vekur athygli að ákært var í 63 brotum vegna vörslu og meðferðar ávana- og fíkniefna, 20 vegna minniháttar líkamsárásar og 10 vegna meiriháttar líkamsárásar.
Fjölgun auðgunarbrota
Þetta kemur fram í nýútkominni ársskýrslu Ríkislögreglustjóra. Þar er vakin athygli á því að auðgunarbrotum á Suðurnesjum fækkaði áberandi árið 2007 en fjölgaði síðan á ný 2008. Skráð auðgunarbrot árið 2008 voru 369. „ Fjöldi þessara mála hefur sveiflast mikið milli ára eftir töluverða fjölgun í málaflokknum fyrir nokkrum árum þegar umsvif í framkvæmdum hvers konar jukust mjög víðs vegar í umdæminu, ekki síst í byggingarframkvæmdum,“ segir í skýrslunni.
Mikil auking í fölsuðum skilríkjum
Í heildina skrifuðu starfsmenn landamæradeildarinnar, sem heyrir undir embætti Löreglustjórans á Suðurnsjum, 50 skilríkjarannsóknasky´rslur.
Af þeim voru 37 vegna mála er komu upp í Flugstöð Leifs Eiríkssonar en aðrar vegna skilríkja er aðsend voru frá öðrum embættum og stofnunum. Lagt var hald á alls 53 skilríki en þar er um verulega fjölgun að ræða frá fyrra ári en þá var lagt hald á 17 skilríki.
Kærur í 221 fíknaefnabroti – Hald lagt á 23 kíló
Kynferðisbrot sem komu til rannsóknar árið 2008 voru 44 en það eru nokkru fleiri brot en í meðalári hjá embættinu. Árið 2008 kom 121 líkamsárás til rannsóknar en það er ámóta málafjöldi og árið áður.
Fjöldi fíkniefnabrota er nokkru yfir meðaltali síðustu þriggja ára og má rekja þá aukningu að mestu leyti til átaks almennrar lögreglu vegna aksturs undir áhrifum
fíkniefna. Í kjölfar nokkurra slíkra mála fundust fíkniefni, annaðhvort í bifreiðum, í fórum ökumanns eða farþega eða í húsleitum. Samtals var 221 fíkniefnabrot skráð á árinu en þau voru 186 árið 2007. Magn fíkniefna sem lagt var hald á var samtals árið 2008 tæplega 23 kg.
Á árinu 2008 var 101,9 m.kr. tekjuhalli af rekstri embættisins. Samkvæmt efnahagsreikningi námu eignir embættisins 84,8 m.kr., skuldir 270,0 m.kr. og eigið
fé var neikvætt um 186,1 m.kr. í árslok.