530 farþegar fengu flugmiða í sárabætur
Miklar tafir hafa verið á flugi vélar frá Icelandair til og frá San Fransisco síðan í gær. Um 260 manns fóru í loftið áleiðis til Bandaríkjanna um þrjúleytið í nótt. Ytra biðu 270 farþegar þess að komast til Íslands. Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, sagði fyrirtækið hafa gefið öllum farþegunum 530 flugmiða að eigin vali á öllum flugleiðum fyrirtækisins í sárabætur vegna tafanna.
Að sögn Guðjóns orsakaðist töfin af biluðum ventli í öðrum hreyfli vélarinnar og var vélinni lagt þar til beðið var varahlutar erlendis frá.
Vegna þessa féll niður flug til Berlínar í morgun. Guðjón segir flugfélagið hafa þó komið farþegunum á áfangastað eftir öðrum leiðum. Fóru þeir með vél félagsins fyrst til Kaupmannahafnar og Lundúna áður en þeir komust til Berlínar.
Allir farþegarnir 530 sem töfðust vegna bilunarinnar fengu flugmiða frá Icelandair. Guðjón sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins að um sárabætur væri að ræða vegna þeirrar löngu og leiðinlegu tafar sem þeir hefðu orðið fyrir vegna bilunarinnar. „Við gerum þetta af góðum vilja,“ sagði Guðjón.
Um er að ræða flugmiða báða leiðir á öllum flugleiðum Icelandair og gildir miðinn í tvö ár.
Flugvél Icelandair fór á loft fyrir stundu frá San Fransisco með 270 farþega innanborðs.
Þetta kemur fram á fréttavef Morgunblaðsins.