520 kg. af smárusli í Reykjanesbæjarplokki
Þátttaka almennings í Stóra plokkdeginum í Reykjanesbæ á sunnudaginn var líklegast um 40 til 50 manns. Árangurinn dagsins var mjög góður, segir Tómas J. Knútsson hjá Bláa hernum, sem leiddi verkefnið í Reykjanesbæ.
Fylltir voru 65 pokar og var vigtin 520 kg., sem gerir að meðaltali 8 kg. í poka.
„Vonandi munu íbúar Reykjanesskagans taka upp þennan sið að vilja hreinsa sitt nærumhverfi og leggja þannig sitt lóð á þær vogaskálar sem allir vilja búa við, þ.e. hreinna umhverfi. Allir geta eitthvað en enginn einn allt,“ segir Tómas um leið og hann sendir sumarkveðju til íbúa og þakkir fyrir samveruna um liðna helgi.