Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

  • 52 menn í áhöfn og alltaf á hálfum hlut
    Hrafn Sveinbjarnarson GK 255 við bryggju í Grindavík í síðustu viku. VF-myndir: Hilmar Bragi
  • 52 menn í áhöfn og alltaf á hálfum hlut
    Eiríkur Óli Dagbjartsson útgerðarstóri.
Föstudagur 28. nóvember 2014 kl. 11:35

52 menn í áhöfn og alltaf á hálfum hlut

– og á hálfu kaupi bæði í landi og á sjó.

Hrafn Sveinbjarnarson GK hélt til veiða á sunnudag í fyrsta skipti eftir umfangsmiklar breytingar á skipinu. Skipið er í dag stærsta fiskiskip í flota Suðurnesjamanna og flaggskipið í útgerðinni hjá Þorbirni hf. í Grindavík. Þorbjörn gerir í dag út fjögur línuskip og tvo frystitogara. Hrafn Sveinbjarnarson GK hefur farið í gegnum gagngerar endurbætur. Skipið var lengt úr 47,90 metrum í 63,3 metra hjá skipasmíðastöð í Póllandi. Skipið kom svo til Grindavíkur í haust og hefur síðustu vikur verið unnið að frágangi á skipinu við bryggju í Grindavík.

„Við ákváðum snemma á þessu ári að fara í gagngerar breytingar á fyrirkomulagi útgerðarinnar og á Hrafni Sveinbjarnarsyni GK. Við ákváðum að setja einn af þremur frystitogurum á söluskrá og setja annan í lengingu til Póllands, sem hafði staðið lengi til,“ segir Eiríkur Óli Dagbjartsson, útgerðarstjóri hjá Þorbirni hf. í samtali við Víkurfréttir.




Lengdur um 15,4 metra og skipt um 80 tonn af járni

Hrafn Sveinbjarnarson GK kom til Póllands 11. apríl og var lengdur þar um 15,4 metra. Mjög margt í uppsöfnuðu viðhaldi var framkvæmt í leiðinni á vélbúnaði, frystibúnaði og í járni. Gert var við þynningar og í raun var skipt um 80 tonn af járni fyrir utan lenginguna á skipinu. Skipið var allt sandblásið frá toppi til táar. Allt var rifið út af vinnsludekki og gert við tæringar þar. Þá komu fram kröfur um styrkingar á kinnung þannig að allt var rifið úr lestinni einnig. „Að mjög mörgu leyti er þetta skip í rauninni nýtt og reiknað er með að Hrafn Sveinbjarnarson GK verði léttur í viðhaldi næstu árin,“ segir Eiríkur Óli.

Hugmyndin um lengingu á skipinu hafði verið til skoðunar í nokkur ár en frá því ákvörðunin var tekin þá var stuttur tími til stefnu og menn voru ekki að velta sér upp úr teikningum í marga mánuði.



Í land að morgni og út aftur að kvöldi

- Nú hefur frystitogurum fækkað á undanförnum árum en þið veðjið á þann hest?
„Já, vissulega hefur frystitogurum fækkað mikið og það eru margar ástæður fyrir því. Minnkun í magni er þó alls ekki eins mikil eins og töluleg fækkun skipa. Fyrirtæki hafa verið að hagræða. Við fækkum úr þremur frystitogurum í tvo en ætlum að veiða sem mest af þessum kvóta á þessi tvö skip. Við sameinum áhafnir af þessum þremur skipum á tvö. Við þurftum sem betur fer ekki að segja upp mörgum mönnum. Nú er markmiðið að þessir togarar fari út í 3-4 vikna túra, komi inn að morgni eftir veiðiferð og fari aftur út að kvöldi með nýja áhöfn. Í staðinn fyrir að það séu 26 menn í áhöfn plús skiptimenn, þá eru núna 52 menn í áhöfn og alltaf á hálfum hlut og á hálfu kaupi bæði í landi og á sjó. Við byrjuðum á þessu fyrirkomulagi eftir makríl síðsumars og þetta hefur farið ljómandi vel af stað hjá okkur,“ segir Eiríkur Óli.

„Við höfum búið við það nokkur undanfarin ár að olíuverð hefur verið í sögulegu hámarki. Það hefur mikil áhrif á rekstur frystitogara. Afurðaverð lækkuðu og voru orðin mjög lág um tíma en það sem gerði útslagið hjá einhverjum var þessi fanta skattastefna síðustu ríkisstjórnar þegar veiðigjöldin fóru sérlega illa með þennan útgerðarflokk og í raun og veru má segja að þegar verst lét eins og þetta var sett á í byrjun að þá nánast hreinsaðist út öll framlegð þessara skipa og fyrirtæki brugðust við því“.



Skipið gjörbreytist

– Hvernig skip verður Hrafn Sveinbjarnarson GK eftir breytinguna?
„Þetta verður algjör breyting að öllu leyti. Fyrir áhöfnina verður miklu betri starfsmannaaðstaða. Við bættum við tveimur áhafnaklefum og nú verður mjög þægilegt að vera með 26 menn í áhöfn. Það er komin stór og þægileg setustofa. Líkamsræktin um borð hefur verið löguð til og stakkageymslur eru rúmgóðar.

Lengra skip verður miklu þægilegra í sjó að leggja. Hann var mjög stuttur og valt mjög skringilega. Það er oft talað um að þetta sé orðið tveggja öldu skip. Skipið hafði verið stytt þegar það var smíðað upphaflega. Það var hannað sem 58 metra skip en stytt um 10 metra vegna reglna um úreldingar sem þá giltu. Þá var tekið úr skipinu stór hluti af lestinni og skipið varð erfitt í sjó að leggja. Hrafn Sveinbjarnarson GK hefur alltaf verið pínulítið erfiður. Hann er mikið skorinn inn undir sig bæði að framan og aftan þannig að skrokkurinn sem gefur okkur formstöðugleika var fremur lítill. Þetta gjörbreyttist núna með þessari lengingu á skipinu. Þegar skipið kom heim frá Póllandi fékk það um 20 metra á hlið og þeir fundu gífurlega breytingu. Auk þess kom hann upp um 70-80 sentimetra varanlega en hann var áður með djúpristustu skipunum í flotanum vegna þess að það þurfti að steypa svo mikið í hann á sínum tíma því honum hafði verið breytt svo mikið að hann hélst vart á réttum kili“.



500 tonn af unnum afurðum

Eiríkur Óli segir að stóra breytingin í rekstrinum er að núna eykst lestarrýmið um rúman helming. Hann fer úr 270 tonnum af afurðum í tæp 500 tonn, sem fer þó eftir því um hvaða afurðir er að ræða. Olíurými fer úr 180 tonnum og yfir 300 tonn. Skipið var þannig að það þurfti að koma mjög ört inn til löndunar vegna þess hversu lestin var lítil og þá þurfti skipið stundum að skjótast inn eftir olíu í miðri veiðiferð. Sem dæmi þá fór skipið 12 veiðiferðir á síðasta ári en landaði 26 sinnum. Eiríkur Óli segir að þrátt fyrir þessa annmarka sem voru á skipinu hafi það alltaf verið hagkvæmt í rekstri þar sem vélbúnaður í skipinu sé góður. Þá hafa verið notaðir léttari uppsjávarhlerar við trollið sem hefur gert veiðarfærin léttari í drætti. Í dag er olíunotkun um 7,5 tonn á sólarhring en getur farið upp í 10-12 tonn á sólarhring og þegar tonnið kostar rúmar 100.000 krónur, þá skipta eldsneytissparandi aðgerðir töluverðu máli.

Bæði fryst og ferskt

– Ég veit að þið gælið líka við þá hugmynd að nota Hrafn Sveinbjarnarson GK sem ísfisk eða ferskfisktogara.
„Já, það er rétt. Við létum útbúa skipið þannig að það sé með möguleikann auðveldlega til að gera hvoru tveggja. Aftasti hluti lestarinnar, um þriðjungur hennar, er útbúinn þannig að við getum stúkkað hann af. Frystikerfið er þannig að við getum keyrt kælingu á afturlestina og frystingu þar fyrir framan. Þá er hugmyndin að við getum tekið ferskt í lok veiðiferðar. Þá er áhugavert að skoða það alvarlega ef og þegar þar að kemur að fara í 28 daga veiðiferðir en taka þorsk einu sinni í viku og landa honum t.d. 70-80 tonnum á Ísafirði á sunnudagsmorgni og keyra honum þaðan til Grindavíkur þannig að þangað sé hann kominn til vinnslu á mánudegi. Skipið færi svo aftur til veiða og héldi áfram frystingu. Þetta er vel hægt það sem afköst í slægingu eru mjög mikil um borð í skipinu. Þetta eigum við eflaust eftir að prófa en í augnablikinu erum við ofan á í sjófrystingunni. Verðin hafa verið að hækka mikið og þessi rekstur er ágætur í dag og við keppum vel við þetta ferska eins og staðan er núna“.



Hjá Þorbirni sækja frystitogararnir á miðin allt í kringum landið. Vestfjarðamið eru mikil togaramið. „Við erum mikið þar. Við veiðum einnig mikið af gulllaxi og hann er veiddur við suðurströndina. Karfann veiðum við á SV-miðum. Það eru mikil ufsamið austur öll grunnin, frá Grindavík og austur úr. Austfjarðamið eru gjöful og það kemur fyrir að við veiðum út af NA-landi. Við erum hins vegar lítið út af norðurlandi. Við förum líka út fyrir lögsöguna. Við höfum farið í Barentshafið en höfum þá verið á veiðum í norsku og rússnesku lögsögunni. Þá veiðum við úthafskarfa á Reykjaneshrygg, þannig að það er farið víða“.

Þorbjörn gerir út tvo frystitogara, Hrafn Sveinbjarnarson GK og Gnúp GK. Þá eru fjögur línuskip í útgerð. Afli línuskipanna eru langmestur þorskur, a.m.k. á þessum tíma á haustin og fram eftir vetri. Afli línuskipanna kemur langmestur til vinnslu í saltfiskverkuninni hjá Þorbirni í Grindavík. Þar eru unnin saltflök fyrir Spánarmarkað og einnig Grikkland og Ítalíu en hjá Þorbirni eru menn nær alveg hættir að fletja.

Fiskur og franskar á breska vísu

Hjá Þorbirni er einnig verið að vinna ferskan fisk, þá aðallega ýsu á Bretland og Bandaríkin. Þá eru skipin einnig að veiða löngu og keilu og annan meðafla. Langan og keilan hefur verið unnin í starfsstöð fyrirtækisins í Vogum.

– Bretarnir hafa verið að nota fiskinn frá ykkur í hið vinsæla „fish and chips“ og þið ætlið að bregða á leik á föstudaginn og bjóða upp á þennan vinsæla rétt hjá ykkur í Grindavík.
„Það er rétt. Það kom upp hugmynd hér í fyrra að taka þátt í Fjörugum föstudegi sem hressar stelpur sem eru með fyrirtæki hér við götuna báðu okkur að taka þátt í. Sú hugmynd kom upp að bjóða upp á fisk og franskar og því ræddum við við einn viðskiptavin okkar í Bretlandi sem kom hingað í fyrra og tók þátt í uppákomunni. Hingað kom eigandi fyrirtækis sem rekur 40 staði með fisk og franskar á Lundúnasvæðinu ásamt syni sínum til að taka þátt í verkefninu. Þetta verður endurtekið núna föstudaginn 28. nóvember og í þetta sinn kemur eigandinn frá Bretlandi með tvo kokka með sér og við ætlum bara að hafa gaman,“ segir Eiríkur Óli Dagbjartsson, útgerðarstjóri hjá Þorbirni hf. í Grindavík í samtali við Víkurfréttir.

Viðtal: Hilmar Bragi Bárðarson
Myndir: Hilmar Bragi Bárðarson og úr einkasafni




Iðnaðarmaður að störfum við frystitækin í skipinu.



Ný setustofa áhafnarinnar er rúmgóð.



Í borðsalnum á Hrafni Sveinbjarnarsyni GK



Iðnaðarmaður að störfum í skipinu í vikunni áður en það fór til veiða.



Hrafn Sveinbjarnarson GK 255 þegar hann hélt utan til lengingar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024