Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

51 fyrirtæki í samstarfi við Samvinnu
Miðvikudagur 5. desember 2012 kl. 09:34

51 fyrirtæki í samstarfi við Samvinnu

Samvinna, starfsendurhæfing á Suðurnesjum, bauð á dögunum samstarfsfyrirtækjum til málþings í Reykjanesbæ. Markmiðið var að kynna starfsendurhæfingu á vinnustöðum og styrkja samstarf Samvinnu við fyrirtækin á Suðurnesjum. Þó nokkur fyrirtæki sem tekið hafa á móti starfsmönnum til starfsþjálfunar sendu fulltrúa sína á málþingið. Þar var kynning á Samvinnu, Virk starfsendurhæfingarsjóður var kynntur fyrir málþingsgestum og þá sögðu stjórnendur í fyrirtækjum frá reynslu sinni af því að taka fólk til starfsþjálfunar. Einnig sagði þátttakandi Samvinnu frá reynslu sinni af starfsþjálfun. Þá var að endingu kynnt svokallað „Mentora-námskeið“ þar sem fyrirtækjum verður boðið að þjálfa upp leiðbeinendur innan fyrirtækja.

Rúmlega 50 fyrirtæki hafa verið í samstarfi við Samvinnu með starfsendurhæfingu á vinnustöðum og um 70 þátttakendur hafa farið í starfsþjálfun á vinnustað.
„Samstarfið hefur gengið mjög vel og er í stöðugri þróun. Þetta er mjög mikilvægur þáttur í starfsendurhæfingunni og er vert að þakka öllum þeim fjölmörgu fyrirtækjum sem tekið hafa þátt í þessu verkefni með okkur. Við gætum þetta ekki án þeirra,“ segir R. Helga Guðbrandsdóttir ráðgjafi hjá Samvinnu.

Markmiðin með starfsþjálfuninni eru fjölmörg og geta verið breytileg eftir hverjum þátttakanda. Helstu markmiðin eru:

-Að þátttakandi fái tækifæri til að prófa nýjan Starfsvettvang.

-Að stækka tengslanet þátttakanda og opna leið inn á Vinnumarkaðinn.

-Að reyna á starfshæfni þátttakanda á vinnustöðum.

-Að þátttakendur fái yfirsýn yfir vinnumarkaðinn á Suðurnesjum.

Þátttakandi fær tækifæri til að kynnast starfinu á vinnustaðnum með því að vinna þar eins og hann væri einn af starfsmönnunum. Vinnutími þátttakanda er einstaklingsbundinn allt frá hálfum degi, einu sinni í viku til 20 tíma á viku. Þátttakendur fá að kynnast nýjum störfum og hljóta tilsögn um góð vinnubrögð. Ætlast er til að þátttakendur leggi sitt að mörkum á vinnustaðnum, því ættu vinnustaðirnir hæglega að geta nýtt sér starfskrafta þeirra.

Í byrjun árs fékk Samvinna styrk frá Virk starfsendurhæfingarsjóði til þess að þróa og halda utan um atvinnulínu þar sem þátttakendur fá góða eftirfylgd  og starfsþjálfun á vinnustöðum. Eitt af verkefnunum er að kortleggja fyrirtækin á svæðinu, funda með stjórnendum fyrirtækja og leggja grunn að innihaldi samstarfs.

Einnig er fyrirhugað að halda leiðbeinenda/mentora- námskeið fyrir þá sem taka að sér að leiðbeina og vera til taks fyrir þátttakendur í fyrirtækjunum.

„Starfsþjálfun á vinnustað hefur ávallt verið í boði hjá Samvinnu og er í stöðugri þróun. Atvinnulínan var í boði á vorönninni hjá okkur en ekki var næg þátttaka á haustönn til þess að fara af stað með þessa endurhæfingarlínu. Þó fóru um 12 þátttakendur í starfsþjálfun á þessum tíma. Við erum bjartsýnar á að atvinnulínan muni fara af stað í janúar 2013.

Atvinnulínan stendur í 12 vikur og hefst með 5 vikna undirbúningsnámskeiði hjá Samvinnu sem inniheldur m.a. markmiðsetningu, sjálfstyrkingu og starfsfræðslu. Við fáum til okkar fyrirlestra úr atvinnulífinu og förum í heimsóknir í fyrirtæki svo eitthvað sé nefnt.

Næst tekur við sex vikna starfsþjálfun í fyrirtækjum vítt og breytt um Suðurnesin  og að lokum er síðasta vikan notuð í samantekt og endurmat með þátttakendum,“ segir R. Helga Guðbrandsdóttir ráðgjafi að lokum.

Vefsíða Samvinnu er www.starfs.is

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024