5000 tonn af loðnu í Helguvík
Alls eru komin um 5000 tonn af loðnu á land í Helguvík á þessari vertíð. Bræðsla hófst sl. laugardag þegar Hákon EA landaði 630 tonnum. Polar Amaroq fylgdi svo í kjölfarið með 2500 tonn.
„Við erum afskaplega glaðir þegar við fáum fyrsta farminn og hefjum vinnslu. Á loðnuvertíðinni í fyrra fengum við einungis um 3.300 tonn en um 30.000 tonn árið 2015. Hér eru menn bjartsýnir og trúa því að kvótinn náist ef veður helst þokkalegt. Við vorum ekki bjartsýnir í janúar þegar allt benti til að engin loðnuvertíð yrði en nú er það breytt. Þetta er semsagt vertíðin sem aldrei átti að koma og því geta menn ekki annað en verið glaðir,“ sagði Eggert Ólafur Einarsson verksmiðjustjóri á heimasíðu Síldarvinnslunnar.