50 tonna löggustöð á rúntinum
Lögreglan á Keflavíkurflugvelli hefur starfsaðstöðu sína við Leifsstöð í gámaeiningum, þar til stjórnsýsluhús verður byggt á svæðinu. Nú er svo komið að byggja þarf við norðurbyggingu Leifsstöðvar og því varð lögreglan að fara annað með aðsetur sitt.
Þar sem það þótti of mikið rask að taka gámaeiningarnar eða byggingaeiningarnar 12 í sundur og flytja þær þannig, var brugðið á það ráð að fá öfluga krana og 28 hjóla flutningavagn til að færa lögreglustöðina á nýjan stað. Það var gert nú í vikunni og tókst flutningurinn vel. Reyndar stóð tæpt í undirbúningi og munaði litlu að krani myndi leggjast á lögreglustöðina. Það fór allt vel og nú er unnið að því að leggja þær lagnir sem þarf svo starfsemi geti hafist aftur í löggustöðinni.
Til gamans má geta þess að einingarnar 12 vigtuðu um 50 tonn með öllu því sem þar er innandyra. Ekki liggur enn fyrir hvenær stjórnsýsluhús verður byggt á Keflavíkurflugvelli og fram að því notast lögreglan við byggingaeiningar eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.
VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson