50 ár liðin frá stofnun Bæjar- og héraðsbókasafns Keflavíkur
Í dag eru 50 ár liðin frá stofnun Bæjar- og héraðsbókasafns Keflavíkur. Bókasöfn hafa verið til í einhverri mynd frá upphafi ritlistar fyrir fimm þúsund árum síðan en bækur urðu ekki almenningseign fyrr en eftir að Gutenberg fann upp aðferð til prentunar með lausaletri í lok miðalda.
Fyrsta íslenska almenningsbókasafnið tók til starfa 1835 í Flatey á Breiðafirði og voru útlán ókeypis til að auðvelda aðgang.
Fyrsta lestrarfélagið var stofnað 1843 í Austur-Barðastrandarsýslu, þar gátu allir gerst félagar sem „trúandi var fyrir bókum“. Í mörgum sveitum landsins voru lestrarfélögin ígildi skóla. Almenningur hafði yfirleitt ekki tækifæri til skólagöngu og þá komu bækur lestrarfélaganna að góðum notum. Þeim var ætlað að glæða og auka menntun og vekja áhuga manna á landsmálum. Fæstir höfðu efni á að kaupa sér bækur en með því að leggja saman í sjóð var hægt að koma upp vísi að bókasafni og skiptast á að nota bækurnar. Almenningsbókasöfn voru talin helsta skilyrði fyrir andlegum framförum og oft kölluð „háskóli alþýðunnar“.
Lestrarfélög voru stofnuð í sveitarfélögunum á Suðurnesjum sem og annars staðar á landinu. Sögu þeirra má rekja allt til ársins 1889. Lög um lestrarfélög voru ekki sett fyrr en 1937 á Íslandi og þeim fylgdu fjárveitingar frá ríki. Lög um almenningsbókasöfn voru samþykkt árið 1955. Lestrarfélagið í Höfnum hélt áfram starfsemi, Bókasafn Njarðvíkur var stofnað árið 1956 og Bæjar- og héraðsbókasafn Keflavíkur opnaði formlega þann 7. mars 1958.
Bókasafn Reykjanesbæjar varð svo til árið 1994 í kjölfar sameiningar Hafna, Keflavíkur og Njarðvíkur í eitt sveitarfélag þegar almenningsbókasöfn þeirra voru sameinuð í eitt safn. Starfsemi safnsins byggir á hugmyndafræði gömlu lestrarfélaganna, þ.e. „að eiga saman og skiptast á að nota“ og þó svo tækniframfarir hafi auðveldað almenningi aðgang að upplýsingum þá eru söfn enn í dag náma fróðleiks á margvíslegu formi og notendahópur þeirra fjölbreyttur.