Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 2. desember 1999 kl. 16:24

50 % SÖLUAUKNING Á FASTEIGNUM Í GRINDAVÍK

Atvinnulíf í Grindavík er mjög gott um þessar mundir og fasteignaviðskipti hafa því gengið vel á þessu ári. Ásgeir Jónsson, hjá Faseignasölunni Lögbók í Grindavík, segir að þau væru búin að selja ríflega 60 eignir á þessu ári og þeim vantaði fleiri eignir á söluskrá. Til samanburðar má geta þess að í fyrra seldust um 30 eignir. „Í Grindavík er óvenju mikið af einbýlishúsum en okkur vantar raðhús á söluskrá. Nú erum við aðeins með eitt til tvö raðhús á skrá hjá okkur“, segir Ásgeir. Hann segir að ýmsir byggingaraðilar séu að fara að byggja hús af öllum stærðum og gerðum í Grindavík til að mæta þessari auknu eftirspurn. Hvernig skýrir þú þessa miklu söluaukningu? „Talsvert mikið af fólki hefur verið að flytjast til Grindavíkur á undanförnum mánuðum. Ég held að fjölgun íbúa megi fyrst og fremst skýra með breytingum á atvinnulífinu. Bláa lónið er t.d. orðinn mjög stór vinnustaður og Þorbjörn hefur verið að stækka við sig. Önnur fyrirtæki á svæðinu hafa einnig verið að sameinast utanbæjarfyrirtækjum og út af þeim sameiningum hefur fólk flutt með fyrirtækjunum í byggðarlagið. Útgerðin hefur mikið að segja í Grindavík og þegar hún gengur vel þá vex öll þjónusta í kringum hana og skapar störf“, segir Ásgeir og bætir við að bærinn sé líka orðinn mjög huggulegur. Ásgeir segir verð á eignum í Grindavík vera gegnumsneitt örlítið lægra en í Reykjanesbæ en vinsælustu eignirnar hjá honum eru minni eignir í verðflokknum 6-8 milljónir. „Þessar eignir eru vinsælastar hjá unga fólkinu sem er að byrja og eldra fólki sem er að minnka við sig.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024