Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

5 krónur af eldsneytislítranum renna til Landsbjargar
Gunnar Stefánsson, skrifstofustjóri Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.
Þriðjudagur 27. desember 2016 kl. 13:42

5 krónur af eldsneytislítranum renna til Landsbjargar

Verkefnið Gefum & gleðjum, sem Olíuverzlun Íslands hf. stendur fyrir, heldur áfram á miðvikudag og fimmtudag 28. og 29. desember en þessa daga munu 5 krónur af hverjum seldum eldsneytislítra hjá Olís og ÓB renna til Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Landsmönnum gefst þannig tækifæri til að styrkja Slysavarnafélagið Landsbjörg með því að dæla krónum inn á reikning samtakanna um leið og dælt er á bílinn.
 
„Þetta verkefni Olís og ÓB skiptir Slysavarnafélagið Landsbjörg miklu máli. Björgunarsveitirnar treysta á velvild almennings til þess að viðhalda rekstri sínum og sinna nauðsynlegum tækjakaupum til þess að geta brugðist við eins fljótt og kostur er þegar kallið kemur,“ segir Gunnar Stefánsson, skrifstofustjóri Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.
 
„Við erum afskaplega ánægð og stolt að styðja við bakið á Slysavarnafélaginu Landsbjörg. Samtökin hafa innan sinna raða þúsundir sjálfboðaliða sem vinna ómetanlegt starf við að bjarga mannslífum í háskafullum veðrum og aðstæðum. Ég vona að landsmenn sýni Slysavarnarfélaginu Landsbjörg stuðning næstu daga og styðji við bakið á þessu gríðarlega mikilvæga og óeigingjarna starfi sem samtökin leysa af hendi,“ segir Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís.
 
Olís hefur um árabil verið mikilvægur samstarfsaðili Slysavarnafélagsins Landsbjargar sem einn af aðalstyrktaraðilum samtakanna og hefur styrkt þau með fjárframlögum og veglegum afslætti af eldsneyti og öðrum vörum. Þá hefur Olís boðið upp á sérstaka neyðaraðstoð sem felst í því að opna afgreiðslustöðvar félagsins að kvöld- og næturlagi ef björgunaraðgerðir eru í gangi til að björgunarsveitir hafi aðgang að eldsneyti og öðrum búnaði á öllum tímum sólarhringsins.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024