Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

  • 48,5% aukning í brottförum milli ára í október
  • 48,5% aukning í brottförum milli ára í október
Þriðjudagur 10. nóvember 2015 kl. 05:00

48,5% aukning í brottförum milli ára í október

– Ferðamenn í október slá öll fyrri met

Um 99 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu í október síðastliðnum samkvæmt talningum Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða 32 þúsund fleiri en í október á síðasta ári. Aukningin nemur 48,5% milli ára og hefur hún ekki mælst svo mikil milli ára í október frá því Ferðamálastofa hóf talningar. Fjöldinn frá áramótum er nú kominn vel yfir eina milljón. Þetta kemur fram í frétt frá Ferðamálastofu.

Aukning alla mánuði ársins
Aukning hefur verið alla mánuði ársins á milli ára, þó aldrei jafn mikil og nú í október. Aukningin var 34,5% í janúar, 34,4% í febrúar, 26,8% í mars, 20,9% í apríl, 36,4% í maí, 24,2% í júní, 25,0% í júlí, 23,4% í ágúst og 39,4% í september.

Þrír fjórðu ferðamanna í október af tíu þjóðernum
Um 75% ferðamanna í október síðastliðnum voru af tíu þjóðernum. Bretar voru fjölmennastir eða 24,4% af heildarfjölda og næstfjölmennastir voru Bandaríkjamenn (16,3%). Þar á eftir fylgdu síðan Norðmenn (6,3%), Þjóðverjar (5,8%), Danir (5,0%), Kínverjar (4,4%), Svíar (3,7%), Kanadamenn (3,6%), Frakkar (3,0%) og Pólverjar (2,2%).

Af einstaka þjóðernum fjölgaði Bretum, Bandaríkjamönnum, Þjóðverjum, Kínverjum og Pólverjum mest milli ára í október en 7.891 fleiri Bretar komu í október í ár en í fyrra, 7.568 fleiri Bandaríkjamenn, 2.462 fleiri Þjóðverjar, 2.330 fleiri Kínverjar og 1.227 fleiri Pólverjar. Þessar fimm þjóðir báru uppi 66,5% aukningu ferðamanna í október.

Fjöldi ferðamanna í október á tímabilinu 2002-2015
Ferðamönnum í október hefur fjölgað verulega frá því Ferðamálastofa hóf talningar á Keflavíkurflugvelli árið 2002 og þá einkum síðastliðin fimm ár. Heildarfjöldi ferðamanna í októbermánuði hefur t.a.m. nærri þrefaldast frá 2010 og munar þá mestu um aukningu Breta og Bandríkjamanna og þeirra sem flokkast undir ,,önnur þjóðerni“ sem hafa nærri fjórfaldast. Ferðamenn frá Mið- og S-Evrópu hafa á sama tíma nærri þrefaldast og Norðurlandabúar nærri tvöfaldast.

Um 1,1 milljón ferðamanna frá áramótum
Það sem af er ári hafa 1.108.986 erlendir ferðamenn farið frá landinu eða 254.371 fleiri en á sama tíma í fyrra. Um er að ræða 29,8% aukningu milli ára. Veruleg aukning hefur verið frá flestum mörkuðum nema Norðurlöndunum sem hafa staðið í stað. Aukningin hefur verið 51,7,% frá N-Ameríku, 31,0% frá Bretlandi, 21,2% frá Mið- og S-Evrópu og 40,6% frá öðrum löndum sem ekki eru talin sérstaklega og flokkast undir ,,annað“.

Ferðir Íslendinga utan
Um 45 þúsund Íslendingar fóru utan í október síðastliðnum eða um 3.700 fleiri en í október árið 2014. Frá áramótum hafa 381.458 Íslendingar farið utan eða 42.038 fleiri en á sama tímabili árið 2014.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024