45 herbergja Detox-meðferðarstöð opnuð í Reykjanesbæ
Fyrsta meðferðin í nýrri Detox-meðferðarstöð á Ásbrú í Reykjanesbæ hefst á morgun þegar hópur fólks kemur til tveggja vikna dvalar hjá Detox Jónínu Ben.
Meðferðarstöðin var formlega opnuð í dag í móttöku nú í kvöld, en opið hús var í meðferðarstöðinni síðdegis, þar sem fólk gat komið og séð með eigin augum húsakost og kynnt sér hvað fer fram þar innan dyra.
Detox Jónínu Ben er að Lindarbraut 634 á Ásbrú í Reykjanesbæ, beint á móti Háaleitisskóla.
Nýja meðferðarstöðin er á tveimur hæðum í rúmlega 2.200 fermetra húsnæði. 45 herbergi standa gestum til boða og eru herbergin öll alveg eins, búin amerísku rúmi, ljósum húsgögnum og með parketi á gólfum. Í húsnæðinu er leikfimisalur, sauna, infra-rauður klefi og heitur útipottur. Einnig eru nuddherbergi, herbergi fyrir hinar ýmsu snyrtimeðferðir og herbergi fyrir ristilskolun. Þá er skemmtilegur sólpallur er við húsið. Meðfylgjandi myndir voru teknar við opnunina nú í kvöld.
Nánar í Víkurfréttum í næstu viku.
Sigrún Kjartansdóttir framkvæmdastjóri Detox ehf. og Jónína Benediktsdóttir íþróttafræðingur og detoxráðgjafi. Á efstu myndinni er Jónína ásamt Kjartani Þór Eiríkssyni, framkvæmdastjóra Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, sem annast eignaumsýslu á Ásbrú og er eigandi þess húsnæðis sem Detox-meðferðarstöðin er í.
Fjölmennt var við opnun Detox-meðferðarstöðvarinnar nú í kvöld.
Gunnar í Krossinum blessaði starfsemi stöðvarinnar á Ásbrú. Gunnar sérhæfir sig í að blessa fyrirtæki á Ásbrú, því þetta er a.m.k. annað fyrirtækið sem hann blessar á svæðinu á fáeinum dögum.
Detox Jónínu Ben er í þessari byggingu að Lindarbraut 634 á Ásbrú í Reykjanesbæ.