Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

438 manns án atvinnu á Suðurnesjum
Miðvikudagur 15. janúar 2003 kl. 13:34

438 manns án atvinnu á Suðurnesjum

Í Víkurfréttum sem koma út á morgun er áfram fjallað um fátækt í Reykjanesbæ. Í blaðinu á morgun er m.a. talað við Gylfa Jón Guðmundsson yfirsálfræðing, Sveindísi Valdimarsdóttur fulltrúa minnihlutans í félagsmálaráði og Svönu Jónsdóttur formann félagsmálaráðs. Ketill Jósepsson forstöðumaður Svæðisvinnumiðlunar Suðurnesja segir að 49 manns hafi verið atvinnulausir í 6 mánuði eða lengur í viðtali við Víkurfréttir. Hvernig hefur þróunin verið síðustu mánuði á atvinnuleysisskránni ?
Þróunin síðustu mánuði hefur verið sú að atvinnulausum hefur fjölgað að meðaltali 10 - 15 manns á viku. Í dag eru 438 manns án atvinnu, 203 karlar og 235 konur.

Hve margir voru atvinnulausir á Suðurnesjum á sama tíma í fyrra ?
Á sama tíma í fyrra voru 264 án atvinnu, 97 karlar og 167 konur.

Býstu við enn frekari aukningu atvinnulausra á Suðurnesjum ?
Það er ekki alveg séð fyrir endann á uppsögnum starfsmanna á svæðinu þar sem fyrir stuttu síðan bárust fréttir af uppsögnum starfsmanna hjá Hagkaupi. Vonandi fer vertíðin vel af stað og gæftirnar sömuleiðis. Þegar hjólin í sjávarútveginum snúast greiðlega hefur það jákvæð áhrif á aðra atvinnustarfsemi. Flugleiðir hefja að nýju flug til New York en sú leið var lögð niður í haust. Flug til og frá landinu kemur til með að aukast á næstu mánuðum þar sem fleiri aðilar koma að fluginu. Vinna við breikkun Reykjanesbrautar er hafin og má í framhaldi af því vænta meiri atvinnutilboða. Okkur vantar meiri framkvæmdir í byggingageiranum hvort sem um er að ræða opinbera aðila eða aðila í einkageiranum.

Fáið þið fólk til ykkar sem óskar eftir aðstoð vegna fjárhagslegra erfiðleika (fátæktar) ?
Fólk kemur til okkar og leitar ýmissa upplýsinga t.d hvert á það að snúa sér þegar ýmsir erfiðleikar steðja að eins og fjárhagsörðugleikar. Sem betur fer stendur fólki ýmis ráðgjöf til boða bæði hér hjá okkur, í bönkum, sparisjóðum og kirkjunni svo eitthvað sé nefnt.

Hve margir á atvinnuleysisskránni hafa verið atvinnulausir í 6 mánuði eða lengur ?
49 manns hafa verið 6 mánuði eða lengur á skránni.

Í hverju felst ykkar aðstoð í megindráttum ?
Aðstoð við hinn atvinnulausa felst aðallega í því að upplýsa viðkomandi um vinnu hér á svæðinu svo og öllu landinu ef því er að skipta. Jafnframt veitum við upplýsingar varðandi nám og námskeið. Þegar ekkert atvinnuframboð er í gangi þá er leitað annarra úrræða svo sem í formi námskeiða af ýmsu tagi. Reynt hefur verið að taka tillit til óska þeirra sem eru á skránni og hefur ásóknin verið mest í hvers konar tölvunámskeið. Það nýjast sem við erum að fara af stað með heitir "Vertu þú sjálf / sjálfur .... en hver ertu ?" Þarna er markmiðið að veita ungu atvinnulausu fólki stuðning og hvatningu til að takast á við atvinnuleysið og líta á það sem tækifæri til sjálfskoðunar og gerð framtíðaráætlana.

Hvaða leiðir sérðu fyrir þér til að minnka fátækt á Íslandi ?
Þegar stórt er spurt verður stundum fátt um svör en mín skoðun er sú að okkur vantar skýra og heildstæða fjölskyldustefnu í þessu landi þar sem foreldrum er gert kleift að lifa á launum sínum og vera jafnframt meira heima með börnum sínum. Það þekkist ekki í nágrannalöndum okkar þessi óhóflega vinna til að hafa í sig og á. Einnig finnst mér þurfa að hlúa meira að andlegri fátækt fólks, trúna á hið góða í hverjum og einum og þeim mætti sem kærleikurinn býr yfir.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024