43 af Suðurnesjum missa vinnuna hjá ÍAV
Á fimmta tug þeirra starfsmanna sem missa vinnuna hjá ÍAV á næstu mánuðum er búsettur á Suðurnesjum. „Það er ekki á það bætandi,“ segir Ólafur Magnússon, starfsmaður Félags iðn- og tæknigreina í Reykjanesbæ, við Morgunblaðið í gær og vísar þar til slæms atvinnuástands á Suðurnesjum.
Stærsta verkefni ÍAV, byggingu tónlistarhússins Hörpunnar við Reykjavíkurhöfn, lýkur í vor og sér fyrirtækið fram á skort á verkefnum eftir það. Þess vegna var ákveðið að fækka starfsfólki um liðlega 180. Uppsagnarfrestur er 3 - 6 mánuðir. Fjöldi Suðurnesjamanna er í vinnu hjá ÍAV, meðal annars við byggingu Hörpunnar. Samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu eru 43 þeirra starfsmanna sem missa vinnuna búsettir á Suðurnesjum. Það eru bæði iðnaðarmenn og verkamenn.
Ólafur segir í frétt Morgunblaðsins að í hópi þeirra sem missa nú vinnuna séu menn sem þar hafi unnið í 20 til 30 ár.