400 landgönguliðar æfa lendingu í Sandvík
Varnaræfing Atlantshafsbandalagsins, Trident Juncture 2018, verður haldin á Norður-Atlantshafi, í Noregi og á Íslandi í október og nóvember næstkomandi. Um er að ræða stærstu varnaræfingu bandalagsins frá 2015.
Í aðdraganda aðalæfingarinnar í Noregi fer fram minni æfing hér á landi undir merkjum Trident Juncture 2018. Hún verður haldin þann 16. október í Sandvík, nærri Höfnum í Reykjanesbæ, og á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.
400 manna bandarískt landgöngulið æfir lendingu í Sandvík en um 120 hundrað landgönguliðar verða fluttir með þyrlum á öryggissvæðið þar sem æfð verða viðbrögð við árás á stjórnstöð Landhelgisgæslu Íslands.
Sérsveit ríkislögreglustjóra tekur þátt í æfingunni en lögregla og Landhelgisgæsla sjá auk þess um að tryggja öryggi og framfylgja takmörkuðum lokunum á æfingasvæðinu. Ekki er búist við að röskun verði á flugumferð vegna æfingarinnar. Þá verður þess sérstaklega gætt að ekkert umhverfisrask verði.
Í aðalæfingunni í Noregi, sem hefst 25. október og stendur til 7. nóvember, taka þátt um fjörutíu þúsund hermenn og borgaralegir sérfræðingar frá meira en þrjátíu aðildarríkjum bandalagsins og samstarfsríkjum, þar á meðal Svíþjóð og Finnlandi. Æfðar verða sameiginlegar varnir með vísan til fimmtu greinar Atlantshafssáttmálans.
Að neðan er myndskeið sem Ellert Grétarsson hefur gert um Sandvík
Að neðan er myndskeið sem Ellert Grétarsson hefur gert um Sandvík