Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

3ja ára rekstaráætlun RNB: Jafnvægi í rekstri og 310 milljóna króna afgangur
Þriðjudagur 10. apríl 2007 kl. 11:40

3ja ára rekstaráætlun RNB: Jafnvægi í rekstri og 310 milljóna króna afgangur

- Launaliður vanáætlaður um 100 milljónir og leigugreiðslur aukast um hundruð milljóna, segir minnihlutinn -

Gert er ráð fyrir 6,9% meðaltalshækkun útsvars á milli ára í nýútkominni þriggja ára fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar. Þá er gert ráð fyrir að skatttekjur vegna fasteignaskatta hækki um 9,5% vegna þeirrar magnaukningar sem verður á íbúðar- og atvinnuhúsnæði.

Af sérstökum verkefnum á tímabilinu er gert ráð fyrir að framkvæmdir við grunn- og leikskóla haldi áfram í samræmi við íbúafjölgun. Þannig er gert ráð fyrir stækkun leikskólans við Vesturberg, rekstur Akursels kemur inn að öllu leyti, nýtt íþróttahús og sundlaug við Akurskóla verða tekin í fullan rekstur og lokaáfangi Akurskóla, verður byggður og tekinn í notkun á tímabilinu. Vinna heldur áfram við uppbyggingu íþróttasvæðisins við Reykjaneshöll, félagsaðstaða Keflavíkur verður bætt og hafist verður handa við byggingu nýs Fimleikahúss á tímabilinu, svo dæmi séu tekin.

Áætlunin gerir ráð fyrir jákvæðum rekstri bæjarsjóðs og samstæðu öll árin og reiknað er með að eignir vaxi langt umfram skuldir á þessu tímabili. Áætlað er að rekstur bæjarsjóðs skili afgangi upp á rúmlega 310 milljónir á tímabilinu og samstæðan ríflega 1,3 milljörðum, segir greinargerð meirihlutans með áætluninni, sem lögð var fram og kynnt á síðasta bæjarstjórnarfundi.

Guðbrandur Einarsson, bæjarfulltrúi A-lista segir það áhyggjuefni  að áfram skuli haldið á þeirri braut að tekjur rétt dugi fyrir gjöldum.
„Slíkt er mjög varhugavert ef áætlanir bregðast á einhverju sviði. Má nefna sem dæmi að það er mjög naumt skammtað í launalið áætlunarinnar, aðeins 2-3% hækkun á ári en launaskrið undanfarinna ára hefur verið á bilinu 5-6% á ári. Þetta þýðir að sá liður er vanáætlaður um 100 milljónir. Sú fjárbinding sem felst í fjárfestingu uppá tæpa þrjá milljarða hlýtur einnig að vekja athygli. Hún mun auka leigugreiðslur sveitarfélagsins um hundruði milljóna.“ segir í bókun sem Guðbrandur lagði fram fyrir hönd A-lista.

Í greinargerð með fjárhagsáætluninni segir hins vegar að varlega sé farið við gerð rekstraráætlunar og varfærnissjónarmið séu á flestum stöðum látin gilda vegna tekjuáætlunar. Þess sé gætt að gjöld séu ekki vanáætluð en engu að síður sé niðurstaða rekstrar bæjarsjóðs og samstæðureiknings jákvæð öll árin og líkur á að rekstur sveitarfélagsins verði í góðu jafnvægi.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024