Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

39% atvinnulausra yngri en 30 ára
Föstudagur 19. október 2012 kl. 08:11

39% atvinnulausra yngri en 30 ára

Tölur frá Vinnumálastofnun sýna að dregið hefur úr atvinnuleysi á landinu miðað við sama tíma í fyrra. Í maí 2011 mældist atvinnuleysi á Suðurnesjum 12,1% en var 9,4% í maí 2012. Það er mun hærra hlutfall en í öðrum landshlutum en næst á eftir Suðurnesjum kemur höfuðborgarsvæðið með 6,3% atvinnuleysi. Yfir landið allt mælist atvinnuleysið 5,6% í maí á þessu ári. Mest hefur dregið úr atvinnuleysi á Suðurnesjum samanborið við höfuðborgarsvæðið og landið allt frá því á sama tíma í fyrra. Lítill munur er milli kynjanna en karlar eru 50,3% þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá en konur 49,7%.

Á Suðurnesjum er hlutfallslega mest atvinnuleysi í Sandgerðisbæ eða 11,4% en minnst í Grindavíkurbæ eða 4,8% sem er undir landsmeðaltali. Samdráttur í útgerð og brotthvarf varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli árið 2006 leiddi til þess að atvinnuleysi jókst fyrr á Suðurnesjum en í öðrum landshlutum. Ein af aðgerðum ríkisstjórnarinnar í kjölfar efnahagshrunsins var að lengja tímabundið tímabil atvinnuleysisbóta úr þremur árum í fjögur ár. Margir einstaklingar á Suðurnesjum eru búnir að missa bótaréttinn eða munu missa hann á árinu 2012. Af þeim sem munu ljúka 36 mánaða bótarétti hjá Vinnumálastofnun á árinu eru 16,9% búsettir á Suðurnesjum og einnig 9,6% þeirra sem munu ljúka 48 mánaða bótarétti á árinu. Hjá Vinnumálastofnun á Suðurnesjum eru 229 einstaklingar sem hafa verið án atvinnu í meira en tvö ár en það er sambærilegt hlutfall miðað við höfuðborgarsvæðið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Atvinnuleysi meðal ungs fólks er ennþá töluvert áhyggjuefni á svæðinu. Einstaklingar yngri en 30 ára eru 39% þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá á Suðurnesjum en það hlutfall stendur í stað miðað við sama tíma árið 2011. Yfir landið allt er hlutfall atvinnulausra einstaklinga undir 30 ára aldri 32%. Þá eru 11,5% allra einstaklinga á aldrinum 20 - 29 ára sem búa á Suðurnesjum á atvinnuleysisskrá.