Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 31. október 2001 kl. 13:41

356 tonna afli í fimm sjóferðum

Útgerð línuskipsins Páls Jónssonar GK, sem áður hét Goðatindur SU, hefur gengið vel og er aflinn orðinn 356 tonn af fiski í aðeins fimm sjóferðum. Hver veiðiferð stendur í sex til sjö daga og hefur aflinn mestur orðið 80 tonn eftir sex sólarhringa á veiðum. Interseafood.com greindi frá.
-- Við fórum í fyrstu veiðiferðina frá Grindavík 9. september og aflinn í tveimur veiðiferðum í september var alls 138 tonn. Í fyrstu veiðiferðinni í október vorum við með 78 tonn, síðan fengum við 60 tonn og nú síðast lönduðum við 80 tonnum sem fengust í sex lagnir fyrir austan, segir Gísli en hann upplýsir að rúmur helmingur aflans hafi verið þorskur en af öðrum tegundum hafi verið mest af steinbíti.
Gísli segir þennan afla ekkert einsdæmi og þannig hafi Sighvatur GK verið með svipaðan afla í síðustu veiðiferð.
-- Það, sem er kannski merkilegt, er að við vorum ekki nema 22 tíma að leggja og draga 30 rekka af línu en það er ekki óalgengt að menn séu um 25 tíma með lögnina. Við erum komnir með nýjan Mustad uppstokkara, sem reynst hefur mjög vel, en að öðru leyti þakka ég þetta harðvönum og duglegum mannskap en það eru s.s. ekki aðrir í áhöfnum línuskipanna, segir Gísli en hann segir fiskgengdina ekki eins mikla nú og á sama tíma undanfarin ár og eins sé áberandi meira um smáan fisk í aflanum.
-- Það er eðlilegt að það skuli koma smár fiskur með enda verður að vera endurnýjun í stofninum. Fiskafjöldinn er því e.t.v. ekki minni en áður en fiskarnir eru smærri, segir Gísli Jónsson.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024