35 ára amma bakar 160 bananabrauð fyrir Fjölskylduhjálp Íslands
Það er sorglegt að þurfa að horfa upp á mæður með börnin sín standa í kuldalegri biðröð og bíða eftir matarúthlutun á miðvikudögum hjá Fjölskylduhjálp Íslands. Biðröðin er hins vegar staðreynd og í gær fengu hundruð einstaklinga poka með matargjöf frá Fjölskylduhjálpinni. Í 160 matarpokum var glaðningur frá Sandgerði.
Jóhanna Ósk Gunnarsdóttir, 35 ára ofuramma úr Sandgerði, hefur fylgst með ástandinu og fundist það sorglegt en á sama tíma viljað hjálpa til.
„Ég hef alltaf viljað hjálpa en ekki haft aðstöðu til þess og ekki haft mikið á milli handanna. Um daginn sá ég hins vegar frétt um hárgreiðslukonu utan af landi sem ætlar að koma suður á háannatíma hjá sér í desember til að klippa börn og fullorðna. Hárgreiðslukonunni sárnaði að sjá hversu fáir vildu hjálpa. Ég hugsaði um það að ég vildi að ég gæti klippt og fór að hugsa hvað ég gæti gert til að hjálpa. Þar sem allir hrósa mér fyrir bananabrauðin mín, ákvað ég að setja mér takmark og baka a.m.k. 150 bananabrauð og það tókst,“ sagði Jóhanna Ósk í samtali við Víkurfréttir.
Jóhanna var allan sunnudaginn og síðan bæði mánudags- og þriðjudagskvöld í vikunni að hræra og baka. Árangurinn varð um 160 bananabrauð sem Jóhanna færði Fjölskylduhjálp Íslands sl. miðvikudag og var dreift í matarúthlutun dagsins.
Jóhanna hefur fengið mikið hrós frá vinum sínum á Facebook fyrir framtakið, enda stórvirki að baka öll þessi brauð. Hún sagðist ekki hafa hugmynd um hvað mikið hráefni hafi farið í baksturinn. Bananarnir væru hins vegar um 180 talsins en aðrar magntölur hafi ekki verið teknar saman. Jóhanna segist hafa fengið aðstoð frá móður sinni, Sigurbjörgu Eiríksdóttur, við hráefniskaupin.
Það hefur því verið í nógu að snúast hjá Jóhönnu síðustu daga. Hún er einstæð móðir með tvo orkubolta á heimilinu, dóttur og ömmubarn. Það hefur því verið í nógu að snúast, á meðan brauðin voru í ofninum. „Ég notaði tímann til að taka til, heilsa upp á vinina á Facebook og knúsa ömmubarnið mitt,“ sagði Jóhanna Ósk í samtali við Víkurfréttir og Vilmundur sonur hennar bætti við að hann vildi að mamma sín ætti sko að fá nýtt nafn: „Mamman sem bjargar heiminum“.