Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

33 starfsmönnum sagt upp hjá Keflavíkurflugvelli ohf.
Laugardagur 31. janúar 2009 kl. 13:36

33 starfsmönnum sagt upp hjá Keflavíkurflugvelli ohf.

- 25 boðin endurráðning í 50% starfshlutfall.


Mikill samdráttur í flugumferð og farþegafjölda hefur leitt til verulegs tekjutaps Keflavíkurflugvallar ohf. og stefnir í 25% samdrátt á þessu ári. Ríkissjóður er ekki aflögufær um frekari fjárveitingar til flugvallarrekstursins en fjárlög segja til um. Hefur stjórn félagsins gert ráðstafanir til að forða hallarekstri með hagræðingu og endurskoðun á mannaflaþörf.
 
Gripið var til sparnaðaraðgerða í flugvallarrekstri síðastliðið haust svo sem kostur er miðað við að fyllsta flugöryggis sé gætt. Ákveðið er að fresta ráðgerðum viðhaldsverkefnum og stefnt að rúmlega 10% lækkun launakostnaðar með minnkaðri yfirvinnu, lækkun starfshlutfalls, tilfærslu og uppsögn 8 starfsmanna. Fríhöfnin ehf. sem er dótturfélag Keflavíkurflugvallar ohf. greip til sama ráðs s.l. haust með fækkun 25% starfsmanna miðað við sama tíma árið áður. Nú starfa samtals um 400 manns hjá félögunum.
 
Laun stjórnarmanna Keflavíkurflugvallar hafa verið lækkuð um 10% og forstjóri og staðgengill forstjóra hafa samþykkt samsvarandi lækkun á launum sínum. Á næstunni verður unnið að endurskoðun og samræmingu starfa á stjórnunarsviðum.
 
Þá hefur 25 starfsmönnum verið sagt upp störfum með boði um endurráðningu miðað við 50% starfshlutfall. Allir utan einn eru öryggisverðir á flugverndarsviði sem rekið er með innheimtu öryggisgjalds af seldum flugfarmiðum og með mannaflaþörf í beinu sambandi við farþegafjölda. Almennt verður ekki ráðið í störf sem losna hjá félaginu og er stefnt að því að starfmenn í hlutastarfi ganga fyrir með auknu starfshlutfalli, t.d. þegar sumarumferð hefst. Hlutastarfsmenn eiga rétt á bótum úr atvinnutryggingarsjóði þannig að heildartekjuskerðing hvers og eins mun að jafnaði nema um 10% fyrstu mánuðina.
 
Félaginu er brýnt að ráðast strax í aðgerðir sem tryggja starfshæfni Keflavíkurflugvallar við þær óvenjulegu aðstæður sem uppi eru. Með ráðstöfunum þessum er leitast við að jafna áhrif milli helstu starfssviða og skapa svigrúm til ítarlegri greiningar og viðbragða eftir því sem tekjugrundvöllur félagsins þróast síðar á árinu. Áætlað er að ofangreindar ráðstafanir skili 200 miljón króna rekstrarsparnaði á ársgrundvelli.
 
Umræddar ráðstafanir taka gildi 1. febrúar og hafa þegar verið kynntar hlutaðeigandi starfsmönnum og stéttarfélögum, segir í tilkynningu frá Keflavíkurflugvelli ohf.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024