33 milljónir í snjómokstur, sand og salt í Reykjanesbæ
Veturinn 2011-2012 er orðinn mesti snjóavetur frá 1982 í Reykjanesbæ og kostnaður við snjómokstur og saltdreifingu var 33 milljónir króna. Að sögn Guðlaugs Helga Sigurjónssonar hjá Reykjanesbæ er þessi vinna vel skipulögð hjá þjónustumiðstöð bæjarins en starfsmenn hennar taka stöðuna kl. 4 á morgnana áður en bæjarbúar fara á fætur.
„Bærinn á sem betur fer góðan vörubíl með snjótönn sem kemur að góðum notum og starfsmenn þjónustumiðstöðvar sjá sjálfir um stofnæðar en síðan er hverfum skipt á milli verktaka en aðgangur að vélum til þessara nota hefur minnkað mikið eftir hrun. Í dag hefur Reykjanesbær aðgang að 16 snjóruðningstækjum. Kostnaður á klukkustund með þessi tæki er 197.750 krónur, svo er bara spurning hve langan tíma það taki að klára verkið. Dagurinn getur því kostað Reykjanesbæ næstum 3 milljónir króna þegar öll tæki eru í notkun.,“ segir Guðlaugur.
Áhersla hefur verið lögð á að halda öllum stofnæðum greiðfærum og að tryggja öryggi akandi og gangandi vegfarenda með dreifingu sands og salts. Þó er ljóst að minna fjármagn er til þessarar þjónustu en á árum áður og því er er mætt m.a. þannig að göngustígar og gangstéttir eru ekki eins mikið hreinsaðar en lögð er áhersla á göngustíga þar sem strætóskýli eru.