32% sölustaða tóbaks seldu 14 – 16 ára ungmennum
– Lakari niðurstaða en síðast
Átta sölustaðir seldu ungmennum á aldrinum 14 – 16 ára tóbak. Á Suðurnesjum eru alls 25 sölustaðir tóbaks sem þýðir að hlutfall sölustaða sem seldu ungmennum er 32%, saman borið við 28% í síðustu könnun sem framkvæmd var fyrir tveimur mánuðum, eða 19. september sl.
Þetta er niðurstaða tóbakskönnunar á vegum Samtaka félagsmiðstöðva á Suðurnesjum (SamSuð). Könnunin fór fram í öllum sveitarfélögunum á Suðurnesjum í síðustu viku. Því voru 68% sölustaða á Suðurnesjum sem seldu ekki tóbak til ungmenna undir 18 ára aldri.
Könnunin fór þannig fram að 14 til 16 ára ungmenni fóru inn á sölustaði og freistuðu þess að fá keypt tóbak.
Í kjölfarið ræddi fulltrúi SamSuð við afgreiðslufólk sölustaðar og tilkynnti að um könnun hefði verið að ræða. Afgreiðslufólk var jafnframt hvatt til að biðja viðskiptavini ávalt um skilríki við sölu á tóbaki.
Könnunin var gerð með leyfi forráðamanna þeirra sölustaða sem farið var á.
Þeim stöðum sem selja tóbak á Suðurnesjum hefur fækkað undanfarin ár en t.d. voru þeir 28 talsins 2009. Hins vegar er áhyggjuefni að hlutfall sölustaða sem selja ungmennum tóbak fer vaxandi. Árið 2009 var hlutfallið 21% borið saman við 32% í ár.
Nokkuð ber á því að ungt fólk sem neitað er um afgreiðslu tóbaks vegna aldurs standi fyrir utan verslanir og reyni að fá eldra fólk til að kaupa tóbak fyrir sig.
Líklegt er að framhald verði á tóbakskönnunum á vegum SamSuð.