32,3 milljónir króna í menningarmál og menningartengda ferðaþjónustu
Samtals munu 32,3 milljónir króna koma árlega til Suðurnesja vegna samnings um menningarmál og menningartengda ferðaþjónstu sem undirritaðir voru í morgun milli ríkisins og sambanda sveitarfélaga um allt land. Samtals verður 250,7 milljónum varið til málaflokksins árlega næstu þrjú árin og er hlutur ríkisins 60% af heildarframlagi en sveitarfélögin leggja til 40%.
Markmið menningarsamninganna er að efla samstarf á sviði menningarmála á hverju svæði auk þess að stuðla að nýsköpun, fjölbreytni og fjölgun atvinnutækifæra á sviði menningar, lista og menningartengdar ferðaþjónustu. Á hverju svæði starfa menningarráð sem eru vettvangur samtarfs sveitarfélaganna og hafa það hlutverk að standa fyrir þróunarstarfi og úthluta fé til verkefna á sviði menningar og menningartengdrar ferðaþjónustu.
Fyrsti menningarsamningurinn var gerður við Austurland árið 2001 en frá árinu 2007 hafa verið í gildi menningarsamningar við alla landshluta utan höfuðborgarsvæðisins. Hefur árangur samninganna verið góður. Hafa þeir stuðlað að fjölgun launaðra starfa við menningu og menningartengda ferðaþjónstu, afleidd störf hafa orðið til, menning hefur orðið aðgengilegri fyrir almenning og samstarf á milli landshluta á sviði menningarmála hefur aukist.