300 íbúða hverfi með ofanvatnslausnum
Uppbygging í austasta hluta Reykjanesbæjar í Dalshverfi III í Reykjanesbæ er að hefjast. Grunnar að fyrstu húsunum hafa verið teknir og þá verður leikskóli reistur í hverfinu. Eins og greint var frá í síðasta blaði hefur verið samið um byggingu sex deilda leikskóla við Drekadal.
Í heild verða 300 íbúðir í Dalshverfi III og þegar er búið að úthluta lóðum undir um 130 íbúðir. Þetta að langstærstum hluti fjölbýlsishús, en einnig nokkur parhús, raðhús og fjögur einbýlishús.
Þetta hverfi er hannað með grænum ofanvatnslausnum þannig að regnvatni er ekki beint í fráveitukerfi bæjarins. Gatnagerð lýkur fljótlega og þá verður farið í seinni úthlutun lóðanna þrjúhundruð.
Markmið skipulags hverfisins er að skapa fjölskylduvænt hverfi, með öruggum gönguleiðum, góðum tengslum við náttúru með grunnskóla og leikskóla í göngufæri. Íbúðastærðum er stillt í hóf og byggðin er lágreist en samt þétt sem býður upp á gott skjól og sólríka garða. Þar sem hverfið er í jaðri byggðar eru góð tækifæri til útivistar í óspilltri náttúru, m.a. á Vogastapa.
Umhverfis- og skipulagsráð hvatti bæjarbúa til að senda inn tillögur að götunöfnum í Dalshverfi III og nafni á hverfistorgið. Bæjarbúar tóku vel við sér og á sjöunda hundrað tillögur bárust. Fjöldi þeirra var ævintýratengdur og niðurstaðan var að göturnar og torgið í nýja þessu nýjasta hverfi bæjarins heita nú: Álfadalur, Trölladalur, Dísardalur, Huldudalur, Risadalur, Dvergadalur, Jötundalur, Drekadalur og Skessutorg.