Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

30 ferðamenn á dag skilja eftir hálfan milljarð á ári
Laugardagur 23. febrúar 2013 kl. 10:23

30 ferðamenn á dag skilja eftir hálfan milljarð á ári

-Mikilvægt að saman um að fá ferðamenn til að stoppa á Suðurnesjum

„Það eru allt of fáir ferðamenn sem stoppa hér á Reykjanesi þrátt fyrir að vera með vinsælasta ferðamannastað landsins, Bláa lónið. Þó við fengjum bara brot af fjöldanum til að stoppa í einn dag þá myndi það skila hundruðum milljóna króna á ári í tekjur á svæðinu,“ segir Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia á Keflavíkurflugvelli.

Björn sagði frá verulegri aukningu ferðamanna til Íslands á fundi Samtaka atvinnulífsins í Stapa í vikunni. Um 650 þús. erlendir ferðamenn koma hingað á ári en hver ferðamaður eyðir að jafnaði um 35 þús. kr. á dag. Sumarmánuðina júní til ágúst fara um 15 þús. manns á sólarhing um Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Ef um þrjátíu manns á dag að meðaltali myndu stoppa hér suður með sjó á dag næmu tekjurnar nærri hálfum milljarði á ári. Það er því eftir miklu að slægjast. Björn Óli segir mikilvægt að ferðaþjónustuaðilar á Reykjanesi standi saman að átaki til að fá ferðamenn til að stoppa meira á Suðurnesjum.  

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Það þarf að búa til gæðavöru og þjónustu sem aðilar á svæðinu standa saman um að selja ferðamönnum. Þetta þarf að vera samvinnuverkefni, ekki ein og ein gistinótt eða heimsókn í Bláa lónið, heldur stór pakki. Selja t.d. þá hugmnd að fólk hefji Íslandsferð með gistingu á Suðurnesjum, fari svo Suðurstrandarveginn og endi í Reykjavík. Ég skora á ferðaþjónustuaðila til að búa til góða söluvöru í sameiningu.“

Björn segir ánægjulegt að sjá þennan kraft í flugfélögunum sem skapar þessa aukningu. Átakið „Ísland allt árið“ eigi stóran þátt í aukningunni. „Við erum að horfa á 10% aukningu ferðamanna næstu árin. Til að taka á móti þessum hópi þarf að skapa aðstöðu þannig að hann komist leiðar sinnar. Það þarf þess vegna að bæta aðstöðuna og afkastagetuna í flugstöðinni og einnig þarf að vinna í lagfæringum á flugbrautum til lengri tíma. Við erum að horfa á milljarða fjárfestingar og framkvæmdir á næstu árum.
Næst tvö árin verða framkvæmdir í flugstöðinni fyrir 3 milljarða, 1,5 í ár og aftur næsta ár. Og svo um tugur milljarða á næstu árum í viðbyggingu við flugstöðina. Þá er gert ráð fyrir um 8 milljarða króna kostnaði við flugbrautir á næstu árum.

Fjölgun flugfélaga sem koma til Íslands og aukning hjá íslensku félögunum kallar á fleira starfsfólk í mörgum greinum í tengslum við flugið. Björn Óli segir að það skipti máli að fá félögin til að nota þjónustu Keflavíkurflugvallar utan hefðbundins annatíma. Þá sé hægt að tryggja fleiri heilsdags störf. Sautján flugfélög munu fljúga til Keflavíkur í sumar. Í vikunni bættist við flugfélagið Vueling Airlines sem flýgur til Keflavíkur frá Barcelona og er umfangsmikið lággjaldaflugfélag þar í landi og flýgur frá Barcelona til hundrað áfangastaða um allan heim.

Rekstur Keflavíkurflugvallar hefur gengið vel og Fríhöfnin er ein af grunnstoðum í rekstri hans og flugstöðvarinnar. Gott gengi hennar hefur þýtt að ekki hefur þurft að hækka farþegagjöld í ár því ekki er um neina ríkisstyrki að ræða í þeim efnum.