273 BÖRN Í ÍÞRÓTTA- OG LEIKJASKÓLA
Leikjaskóli íþrótta- og ungmennafélags Keflavíkur lauk í blíðviðri síðasta föstudag með grillveislu fyrir þátttakendur, leiðbeinendur og foreldra fyrir utan íþróttahúsið við Sunnubraut. Á þessu sumri, sem var það fimmta í röðinni, voru haldin 2 námskeið, það fyrra frá 3.-24. júní og það seinna frá 28. júní til 16. júlí en segja má að um fjóra hópa hafi verið að ræða því kennt var fyrir og eftir hádegi undir leiðsögn Ragnhildar S. Jónsdóttur, Ásdísar Þorgisldóttur, Vilbergs M. Jónassonar og Eysteins H. Haukssonar sem vinnuskólinn kostaði.Farið var í fjársjóðsleit, náttúruskoðun, sund, keilu og fyrirtæki heimsótt. Þá var haldin hátíðlegur hjólreiðadagur og fjölskyldu- og húsdýragarðurinn heimsóttur í óvissuferðinni. Þátttakendur í fyrri hlutanum dönsuðu fyrir foreldra en börnin í seinni helmingnum sýndu myndir og teikningar. Börnin sem stunduðu íþrótta- og leikjaskóla Keflavíkur að þessu sinni voru kvödd með viðurkenningum, bolum merktum leikjaskólanum, Coca-Cola töskum eða fótboltum og derhúfum með mynd af KELA Keflvíking. Skólastjóri íþrótta- og leikjaskólans var Einar Haraldsson, formaður Keflavíkur en leikjaskólinn er á ábyrgð aðalstjórnar.