26 milljónir króna í 15 verkefni Vaxtarsamnings
Stjórn Vaxtarsamnings Suðurnesja úhlutaði styrkjum til nýsköpunar og þróunar á Suðurnesjum í sjötta sinn í gær. Að vanda voru umsóknir um styrki umtalsvert hærri en það fjármagn sem stjórnin hafði til skiptana. Samkeppni um styrki var mikil auk þess sem að mörg áhugaverð verkefni komu til greina.
Að þessu sinni sóttu 39 verkefni um styrk til Vaxtarsamnings Suðurnesja. Styrkbeiðnirnar hljóðuðu upp á rúmar 119 milljónir og var það niðurstaða stjórnar Vaxtarsamnings Suðurnesja að úthluta skyldi 26 milljónum til 15 verkefna. Eftirtalin verkefni hlutu styrk að þessu sinni:
Nr. 1. Ráðstefnur á Reykjanesi - Markaðsstofa Reykjaness
Ráðstefnuhald fer vaxandi á Íslandi. Talið er að árlega komi til Íslands um 64.000 gestir á fundi og ráðstefnur. Samstarfsaðilar þessa verkefnis telja mikilvægt að kortleggja og skilgreina möguleika Reykjaness á að þjónusta þennan markhóp. Með þessu samstarfi og verkefni er verið að skapa grundvöll til að efla ferðaþjónustu á Reykjanesi.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr.700.000
Nr. 2. Pökkunar- og íblöndunarverksmiðja á Suðurnesjum – Íslenski sjávarklasinn
Markmið þessa verkefnis er að gera ítarlega markaðsrannsókn og viðskiptaðáætlun til þess að kanna fýsileika þess að setja upp pökkunar- og íblöndunarverksmiðju í nálægð við Keflvíkurflugvöll. Sýni niðurstöður framá hagkvæmni þess að reisa slíka verksmiðju verða fjölmörg ný atvinnutækifæri sem skapast á svæðinu.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 800.000
Nr. 3. Fjörur á Reykjanesi – vannýtt auðlind í ferðaþjónustu – Þekkingarsetur Suðurnesja
Fjörur á Reykjanesi eru fjölbreyttar og margar hverjar aðgengilegar til nytja og skoðunar. Ætla má að þessi sérstöku landssvæði þar sem sjór og land mætast séu mjög vannýtt auðlind í ferðaþjónustu svæðisins. Með kortlagninu á aðgengilegum fjörum á Reykjanesi aukast möguleikar á nýtingu þess matarkyns sem fjaran gefur og eykur við flóru afþreyingar fyrir ferðamenn.
Verkefni hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1.000.000
Nr. 4. Heilsa, matur, Suðurnes – HalPal slf.
Verkefnið lýtur að hollu mataræði, framleiddu úr hágæða hráefni úr nánasta umhverfi. Í dag er hollum mat dreift til einstaklinga og fyrirtækja á öllu Reykjanesi frá starfsstöðinn i Grindavík. Eitt af markmiðum fyrirtækisins er að stækka þjónustusvæðið. Samstarfið við Codland í þessu verkefni lýtur að vöruþróun sem snýr að notkun collagen sem próteinviðbót í mat. Collagen er unnið úr þorskroði og er því hollur valkostur fyrir þann ört vaxandi hóp fólks sem hugsar vel um heilsu sína og mataræði.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1.000.000
Nr. 5. Optimal Extraction and Refining Methods of Fish Innards Oil – Orkurannsóknir ehf.
Markmið þessa verkefnis er að skilja breytilega eiginleika fiskiolíu sem unnin er úr slógi. Slóg er mjög erfitt hráefni til að vinna með enda skemmist það hratt og samsetning þess breytileg eftir tegundum og árstíma. Til þess að hægt verði að framleiða olíuna á sem hagkvæmastan hátt er þess vegna nauðsynlegt að efla skilning á hvernig umhverfis- og vinnsluþættir hafa áhrif á hana auk þess sem finna þarf út bestu leiðir til hreinsunar. Rannsóknin lýtur að þessum þáttum.
Verkefni hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1.350.000
Nr. 6. FLY – Alhliða flugrekstrarkerfið – Fly ehf.
Verkefninu lýtur að hönnun og þróun á alhliða flugrekstrarkerfi. Kerfið er nýtt miðlægt sérsniðið flugrekstr-, tilkynningar- og alhliða rekstrarkerfi sem er í grunninn flugbókunarkerfi fyrir flugvélar sem ætlað er að mæta þörfum flugskóla, flugklúbba, og annarra minni flugrekanda, með því að samþætta þá hluti sem snúa að öllum rekstrarþáttum þeirra í eitt kerfi. Markaðskönnun hefur leitt í ljós að sambærilegur hugbúnaður er ekki til á markaðnum.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1.350.000
Nr. 7. Dvergarnir og ArcCels – Íslandshús ehf.
Nýsköpun og vöruþróun er órjúfanlegur hluti af starfsvettvangi Íslandshúsa og mun fjöldi nýrra stólpa og tengistykkja koma á markað á nýju ári. Áfram verður unnið að því markmiði að finna samstarfsaðila á Norðurlöndunum og Evrópu um framleiðslu á ArcCels einingum í viðkomandi landi og áframhaldandi þróunarstarf tengt útfærslu, hönnun og notagildi eininganna á viðkomandi mörkuðum.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1.500.000
Nr. 8. Undirlag hjólastóla – Tæknifræðinám Keilis, miðstöð vísinda fræða og atvinnulífs
Verkefnið lýtur að samstarfi MND félags Íslands og Keilis. Mjög víða eiga þeir sem eru háðir því að ferðast um í hjólastólum erfitt með að komast leiðar sinnar vegna hindrana. Markmið þessa verkefnis er að leysa vandamál með því að fullhanna og gera alla forvinnu sem þarf fyrir útfærslu á frumgerð nýrra sliskju, sem myndi leysa af hendi eldri sliskju sem er nú þegar í notkun. Ef vel tekst til er komin lausn á aðkallandi vandamáli fyrir hreyfihamlaða einstaklinga bundna hjólastól, sem á erindi á markaði um allan heim.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1.500.000
Nr. 9. GrasPro – Pitch ehf.
Verkefnið miðar að því að þróa hugbúnað sem heldur utan um skráningar á gildum sem tengjast tæknilegum og faglegum rekstri grasvalla. Með slíkri skráningu og úrvinnslu þeirra gagna er mögulegt að auka gæði vallanna, stýra betur aðstæðum, auka nýtingu þeirra og minnka fjárfestingu og rekstrarkostnað. Í dag er enginn hugbúnaðar á markaðnum sem uppbyggður er á þennan hátt. Verkefnið er áframhaldandi þróun hugbúnaðarins og markaðssetning.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1.500.000
Nr. 10. Harðfisk snakkflögur – Breki – Fiskland
Sérstaða Breka er örþunn harðfisk-flaga sem minnir á snakk, þ.e. lögun og áferð og stærð eru mjög frábrugðin því sem þekkist nú þegar á íslenskum harðfiskmarkaði. Þá er erlendur markaður mjög skammt á veg kominn hvað varðar harðfiskát og því mikil tækifæri þar fyrir hendi með réttri útfærslu á vörunni. Fiskland sér mikil tækifæri í þvi að kenna útlendingum að borða íslenskan harðfisk með því að ná fram þeirri upplifun að þeir séu að borða snakkflögur. Jafnframt er heildarútlit vörunnar gjörólíkt því sem íslendingar eru almennt vanir. Með þvi mun varan ná betri tengingu við alþjóðlegan markað.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1.800.000
Nr. 11. Kolkrabbinn - Viðburðardagatal – Kosmos & Kaos ehf.
Kolkrabbinn er miðlægt viðburðardagatal sem hefur verið í þróun sl. 2 ár. Hugmyndin skapaðist út frá þörf fyrirtækja og stofnana til að deila viðburðum og kynna þá fyrir viðskiptavinum sínum. Eftir töluverðar rannsóknir kom í ljós að skortur er á lausnum sem eru framúrskarandi á þessu sviði. Markmiðið með Kolkrabbanum er að gera upplýsingaflæði um viðburðahald aðgengilegra fyrir alla landsmenn. Hugmyndin er að viðburðarhaldarar þurfi bara að setja inn upplýsingar um viðburði á einn stað og aðrir geti valið að birta viðburði á sínum síðum í sínu útliti.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 2.000.000
Nr. 12. Gæðaprófanir á heilsusalti – Arctic Sea Minerals.
Arctic Sea Salt hefur undanfarna 18 mánuði þróað tækjabúnað sem framleiðir sérstaka tegund af salti sem hefur 60% minna magn af natríum, hátt magn magnesíum og öll snefilefni sjávar. Saltið er áhugavert fyrir matvælaframleiðendur þar sem það býður upp á þann möguleika að lækka natríum í matvælum án þess að draga úr bragðgæðum. Verkefnið lýtur að erlendu markaðsstarfi og gæðaprófunum sem þarf að framkvæma.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 2.500.000
Nr. 13. Reykjanes Geopark Project
Jarðvangur er gæðastimpill á svæði sem inniheldur merkilegar eða einstakar jarðminjar og kemur þeim á framfæri. Ávinningurinn af stofnun jarðvangs er hvort tveggja samfélags- og efnahagslegur. Stefnt er að því að jarðvangurinn verði lyftistöng fyrir svæðið á sviðum ferðamála, framleiðslu og fræðslu. Má þar nefna að áhersla er lögð á nýsköpun og sjálfbæra þróun heima í héraði. Þá styrkist samkeppnishæfni svæðisins með auknu markaðsstarfi, betra aðgengi og öryggi að náttúruperlum, þróun fræðsluefnis, lengingu ferðamannatímans, betra aðgengi að erlendum styrktarsjóðum og aðild að alþjóðlegur neti jarðvanga.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 3.000.000
Nr. 14. GeoSilica Iceland ehf.
Nú þegar þróunarvinnu fyrstu vöru fyrirtækisins er lokið, eru næstu skref að hefja framleiðslu, dreifingu og markaðssetningu. Fæðubótarefninu er ætlað að vera styrkjandi fyrir bandvef líkamans en eins og flestir vita er kísill þekktur fyrir góð og styrkjandi áhrif á húð, hár og neglur. Nú með inntöku kísilsins í formi fæðubótar mun fólki vera gert kleift að styrkja annan bandvef líkamans en þar má nefna beinvef, liði, brjósk og æðakerfi. Verkefnið lýtur að vöruþróun m.a. á vöru í duftformi og töfluformi.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 3.000.000
Nr. 15. UAS iceland
UAS Iceland er ný þekkingar- og hátæknistarfsemi sem tengir saman margvísleg hugbúnaðar- og rannsóknarverkefni við prófanir og uppbyggingu ómannaðra flugfara. Rannsóknir, aðstaða til prófana, flug- og tækninám, framleiðsla og samsetning búnaðar eru afurðir starfseminnar. UAS Iceland er fyrirtæki á upphafsstigi sem er að þróa algjörlega nýja sarfsemi hér á landi.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 3.000.000