Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

250 metra bryggjukantur of gamall
Sigurður A. Kristmundsson, hafnarstjóri í Grindavík.
Sunnudagur 23. mars 2014 kl. 10:33

250 metra bryggjukantur of gamall

Endurnýjunar er þörf í Grindavíkurhöfn.

 

„Þessir kantar eru bara að hrynja. Þeir tærast upp og ryðga og skemmast þar af leiðandi. Það eru ekki til fjármunir fyrir þessu,“ segir Sigurður A. Kristmundsson, hafnarstjóri í Grindavík. Hann segir að í höfninni sé 1001 kílómeter af bryggju og af því sé 250 metra kantur í höfninni kominn á tíma, eða orðinn 45 ára. „Einn meter af bryggjukanti kostar 4-6 milljónir króna. Það gerir einn milljarð fyrir okkur.“
 
Ríkið ætti að leggja meira til
Sigurður segir að verið sé að hugsa alls kyns leiðir, sérstaklega vegna þess að stefnt sé að því að gera höfnina örugga og eyða þessu slæma orðspori sem hefur loðað við innsiglinguna. „Tekjurnar koma frá skipunum sem koma hér inn til löndunar. Allt samfélagið nýtur góðs af því. Við erum að reyna að hafa áhrif á landspólitíkina í þessu, sem er mjög erfitt. Nýtt frumvarp til laga er á leið í gegnum þingið. Þar kemur fram að ríkið leggi til 60% af kostnaði við endurbyggingu bryggjukanta. Við viljum að það verði 90% eins og það var áður fyrr,“ segir Sigurður. Tekjur Grindavíkurhafnar voru 176 milljónir í fyrra og Sigurður segir það gefa augaleið að 400 milljónir verði ekki sóttar í vasa útsvarsgreiðenda í Grindavík. „Gjaldeyristekjur sem verða til á þessu svæði eru um 20 milljarðar á ári. Og ríkið nýtur góðs af því. Við leggjum fram mikinn kostnað en njótum ekki teknanna á móti sem skyldi.“
 
Sama vandamál víða um land
Ennfremur segir Sigurður Hafnarsambandið hafa einnig ályktað um þetta og þar hafi menn verið sammála um að ríkið ætti að koma meira að þessu. „Þetta vandamál er einnig í höfnunum á Snæfellsnesi, í Sandgerði og víðar um landið. Það eru nokkrar hafnir með það miklar tekjur að þær geta staðið undir þessum kostnaði: Faxaflóahafnir, Fjarðabyggðarhafnir, Vestmannaeyjahöfn og hafnir sem eru með mikinn útflutning eins og stóriðjuhafnir. Þar með eru þær upptaldar,“ segir Sigurður.
 
 
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024