Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

25 milljónum úthlutað úr Vaxtarsamningi Suðurnesja
Mánudagur 9. desember 2013 kl. 11:52

25 milljónum úthlutað úr Vaxtarsamningi Suðurnesja

Tilkynnt var um 25 milljóna króna úthlutun styrkja úr Vaxtarsamningi Suðurnesja fyrir helgi. Þetta var fjórða úthlutun styrkja úr samningnum en samtals hefur verið úthlutað 100 milljónum króna.

Samningur um Vaxtarsamning var gerður milli sveitarfélaga á Suðurnesjum og ríkisins til fjögurra ára og er sá samningur nú að renna sitt skeið á enda. Fram kom hjá Ragnheiði Elínu Árnadóttur iðnarðarráðherra að áframhald verði á styrkjum sem þessum og unnið sé að útfærslu þeirra.

Á þessu tímabili hafa mörg frábær sprota- og þróunarverkefni hlotið stuðning, segir í frétt frá Vaxtarsamningi Suðurnesja. Verkefni sem verður spennandi að fylgjast með í framtíðinni.

Árið 2013 var úthlutun úr Vaxtarsamningi alls kr. 25.000.000.


1. Markaðssetning Orkurannsókna ehf.
Orkurannsóknir ehf.

Orkurannsóknir ehf er sjálfstætt starfandi eining innan Keilis. Stefnt er að markaðssetningu þjónustu á sviði efnagreininga, rannsókna á endurnýjanlegri orku og sjálfstýringartækni (mekatronic). Þjónustan sem boðið verður upp á er sérhæfð en jafnframt mjög brýn og gagnast mörgum fyrirtækjum í nærumhverfinu ásamt því að skapa fjölbreytt tækifæri til nýsköpunar á Reykjanesi.
 Styrkur kr. 500 þúsund.

2. Markaðs- og kynningarstarf á nýrri námsbraut í ævintýraleiðsögn.
Keilir, Miðstöð, vístinda, fræða og atvinnulífs.

Markmiðið með verkefninu er að byggja upp námsbraut Keilis í ævintýraleiðsögn á alþjóðalegum grunni, m.a. með inntöku erlendra nemenda og útvíkkun námskeiða fyrir erlenda nemendur.  Mikill áhugi er á Íslandi bæði sem áfangastaður í ævintýraferðamennsku, en ekki síður fyrir þá aðila sem vilja mennta sig í leiðsögn í ævintýraferðamennsku við krefjandi aðstæður.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 500 þúsund.

3. Menntatengd ferðamennska á Suðurnesjum.
GeoCamp Iceland.

Verkefnið miðar að því að nýta einstaka náttúru á Reykjanesinu og nágrenni til að byggja upp og efla menntatengda ferðamennsku á Íslandi með áherslu á erlenda námsmannahópa. Mikill vöxtur er í menntatengdri ferðaþjónustu og sýna rannsóknir að þessir ferðamenn eyði meira en hefðbundnir ferðamenn og eru líklegir til að koma aftur síðar, þá oft með fjölskyldum sínum. Þetta er hópur sem ekki hefur verið sinnt að neinu ráði utan háskólastigsins á Íslandi.
Styrkur kr. 800 þúsund.

4. Seafoodkitchen, Travel, Try and Taset in Sandgerði.
Skref fyrir skref Ráðgjöf.

Verkefnið snýst um að búa til tekjur af ferðamönnum með því að bjóða þeim í ferðalag og heimsókn í áhugavert sjávarréttaeldhús þar sem þeim býðst að elda sjálfir gæðamat úr sjávarfangi. Ferðalaginu lýkur með því að borða heimatilbúna hollusturétti undir leiðsögn matreiðslumeistara í náttúrlegu sjávarumhverfi þar sem lífið er fiskur.
Styrkur kr. 1 milljón.

5. Samstarfsverkefni um erlent markaðsstarf.
Keilir Aviation Academy ehf.

Verkefnið snýr að nýrri nálgun í markaðsvinnu Flugakademíu Keilis í samvinnu við AST í Skotlandi. Flugakademían hefur stofnað til samstarfsbandalags um markaðssetningu erlendis á vörum og þjónustu sinni. Að auki hefur AST og Flugakademían gert með sér gagnvirka samstarfssamninga þar sem unnið verður að því að markaðssetja og fjölga erlendum nemendum í flugvirkjun hingað til lands.
Styrkur kr. 1 milljón.

6. Reiðhjólaferð um orkustíg.
Fjórhjólaævintýri ehf.

Verkefninu er  ætlað að auka afþreyingu fyrir ferðamenn og lengja viðveru þeirra á Suðurnesjum. Reiðhjólaferðir frá Bláa Lóninu og um Reykjanesið er nýjung og í þróun. Farnar voru nokkrar ferðir sl. sumar með erlenda ferðamenn. Stefnt er að enn frekari markaðssetningu á þessari vöru.
Styrkur kr. 1 milljón.

7. Íslandshús, ArcCelseiningar og Dvergarnir.
Íslandshús ehf.

Verkefnið lýtur að erlendu markaðsstarfi um samstarf og útflutning  á ArcCels einingum fyrirtækisins. Um verulegan ávinning gæti verið  að ræða varðandi tæknisamstarf og áframhaldandi vöruþróun, en ekki síst sköpun fjölda nýrra starfa við framleiðslu á  vörum fyrirtækisins.
Styrkur kr. 1 milljón.

8. Keilir heilsukoddi.
Hulda Sveinsdóttir.

Verkefnið er nýsköpunarverkefni á alþjóðavísu og byggir á persónulegri reynslu frumkvöðulsins sem leitaði að kodda sem veitti meiri stuðning undir höfuð/hálssvæði, sem reyndist ófáanlegur.   Búið er að ganga frá hönnunarvernd á koddann í nokkrum löndum. Heilsukoddinn hefur unnið til fjölmargra verðlauna erlendis m.a. í Bandaríkjunum og í kjölfarið er nú markaðssetning hafin þar í landi. Verkefnið lýtur að enn frekari markaðssetningu erlendis.
Styrkur kr. 1,2 milljón.

9. Heilsa og trú.
Heilsuhótel Íslands.

Verkefnið er útvíkkun á núverandi verkefnum Heilsuhótelsins og á sér fáar hliðstæður á  Íslandi eða Norðurlöndunum og þó víða væri leitað. Heilsuhótel Íslands hefur náð góðum árangri í heilsutengdri ferðaþjónustu og hlotið hvatningarverðlaun iðnaðarráðherra. Nýjungin er fólgin í að tengja saman heildræna heilsuuppbyggingu einstaklingsins við íslenska menningu og náttúru samhliða því að tekið er á innri og ytri þáttum manneskjunnar. Um er að ræða heilsuferðir fyrir erlenda aðila.
Styrkur kr. 1,5 milljón.

10.  All Tomorrow´s Parties á Ásbrú.
Ómstríð ehf.

Hér er um framhald á verkefni að ræða sem lýtur að alþjóðlegri tónlistarhátíð á Ásbrú. Hugmyndin að verkefninu fæddist árið 2011 og hefur þróast töluvert síðan. Samstarf um verkefnið er við stjórnendur ATP hátíðarinnar í Bretlandi. Með öflugri markaðssetningu gæti hátíðin orðið hornsteinn ferðaþjónustu þá viku sem hún fer fram þegar fram í sækir.
Styrkur kr. 1,5 milljón.

11. GrasPro.
Pitch ehf.

Verkefnið GrasPro lýtur að þróun hugbúnaðar sem heldur utan um skráningar á gildum sem tengjast tæknilegum og faglegum rekstri grasvalla. Hér er um framhaldsstyrk að ræða sem lýtur að enn  frekari markaðssetningu erlendis.
Styrkur kr. 2 milljónir.

12. Þróun fellingarbúnaðs fyrir kísil úr jarðsjó til framleiðslu á vinnanlegum efnum.
Arctic sea salt.

Megin markmið verkefnisins er að afla þekkingar og undirbúa framleiðslu á verðmætum efnum úr jarðsjó og hafsjó á Reykjanesi. Í framhaldinu verður þróuð aðferð til fullvinslu á vinnanlegum efnum ásamt því að þróaðir verða framleiðsluferlar fyrir heilsusalt úr jarðsjó og hafsjó sem dælt er úr hraunlögum á Reykjanesi.
Styrkur kr. 2 milljónir.

13. Reykjanes Geopark Project.
SES/Atvinnuþróunarfélagið Heklan.

Jarðvangur er gæðastimpill á svæði sem inniheldur merkilegar eða einstakar jarðminjar og kemur þeim á framfæri. Lögð er áhersla á að koma sérstöðunni á framfæri með það að markmiði að upplýsa gesti um jarðfræðiarfleiðina ásamt sögu og menningu svæðisins. Um leið er reynt að vekja samfélagið til umhugsunar um þau tækifæri sem felast í nærumhverfinu til að styrkja stoðir fjölbreyttrar atvinnustarfsemi, s.s. ferðaþjónustu, matvælaframleiðslu og fleira. Verkefnið hlýtur framhaldsstyrk til enn frekari þróunar verkefnisins.
Styrkur kr. 3 milljónir.

14. Próteinverksmiðja í Garði.
Prótein ehf.

Prótein ehf hefur þróað litla vélasamstæðu sem er til þess bær að framleiða mjöl og fiskolíu úr slóg og öðrum aukaafurðum sem ekki eru nýttar í dag.  Hér er um framhaldsstyrk að ræða sem lýtur að lokaþróun  verksmiðjunnar og markaðssetningu afurða.
Styrkur kr. 4 milljónir.

15. Kísilfæðubótarefni unnið úr affallsvatni.
GeoSilica Iceland ehf.

Markmið verkefnisins er vöruþróun, framleiðsla og markaðssetning á hágæða kísilfæðubótarefni unnið úr kísilríku affallsvatni Hellisheiðarvirkjunar. Markaðurinn fyrir kísilfæðubótarefni er nýr og ört vaxandi þar sem vitund almennings um nauðsyn kísils fyrir mannslíkamann fer vaxandi eftir því sem læknisfræðilegum rannsóknum sem staðfesta það fer fjölgandi.
Styrkur kr. 4 milljónir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024