Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

245.is hættir rekstri
Mánudagur 2. janúar 2012 kl. 14:08

245.is hættir rekstri

Vefsíðan 245.is, sem fjallar um fréttir og daglegt líf í Sandgerði mun hætta rekstri frá og með 1. febrúar n.k. um óakveðinn tíma en frá þessu er greint á síðunni í dag.

„Vefurinn 245.is hefur verið starfræktur samfleytt í síðan í júní 2007 og vaxið mikið á þeim tíma. Í upphafi átti verkefnið að vera lítið áhugamál sem yrði sinnt einstaka kvöld í viku, en tók fljótt óvænta stefnu,“ en frá þessu er greint í upplýsingum um starfsemi síðunnar. Þar er einnig sagt frá því að innlit á vefinn hafa lengi verið yfir 1000 á dag, sem er helmingi meira en fjöldi heimila í Sandgerði, en gestir vefsins búa víða um land og allmargir erlendis. Yfir sumartímann er algengt að heimsóknum á hina ýmsu vefi fækki verulega, en það gagnstæða gerðist á góðum sumardegi í júlí 2010 þegar gestafjöldi 245.is fór í rúmlega 5400 á einum degi, sem er ríflega þrefaldur íbúafjöldi Sandgerðis.

Í yfirlýsingu frá þeim Smára Snæbirni Valtýssyni og Selmu Hrönn Maríudóttur á síðunni segir:

„Kæru lesendur nær og fjær. Vegna breyttra aðstæðna höfum við ákveðið að hætta rekstri 245.is frá og með 1. febrúar n.k. um óákveðinn tíma.
Vefurinn hefur nú verið starfræktur samfleytt í 4 1/2 ár og vaxið mikið á þeim tíma. Í upphafi átti verkefnið að vera lítið áhugamál sem yrði sinnt einstaka kvöld í viku, en tók fljótt óvænta stefnu. Innlit á vefinn hafa lengi verið yfir 1000 á dag, sem er helmingi meira en fjöldi heimila í Sandgerði, en gestir vefsins búa víða um land og allmargir erlendis.

Fljótlega eftir að vefurinn fór í loftið vorum við farin að setja dágóðan hluta af vinnutímanum okkar í vefinn á degi hverjum, sem var mjög skemmtilegt, en óhagkvæmt þar sem vinnan var launalaus. Við ákváðum því að leita leiða til að fjármögunar svo við gætum keyrt þetta áfram með sömu formerkjum og leyft vefnum að vaxa og dafna. Það gekk eftir lengi vel, en nú eru breyttir tímar. Við höfum því ákveðið að loka vefnum um óákveðinn tíma og nýta tímann og orkuna í að sinna fyrirtækinu okkar enn betur, en það er okkar lifibrauð.

Í gegnum 245.is höfum við kynnst mikið af góðu og skemmtilegu fólki síðustu ár og viljum við nota tækifærið og þakka kærlega fyrir samskiptin og alla aðstoð á liðnum árum.

Með vinsemd og virðingu og von um að árið 2012 verði ykkur gæfuríkt.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024