240 manns missa vinnuna hjá Icelandair
Starfsmönnum Icelandair verður fækkað um 240 að því er fram kemur í tilkynningu frá félaginu í morgun. Í þeim hópi eru 138 flugfreyjur og 64 flugmenn. Endurskipulagning á rekstri félagsins stendur fyrir dyrum auk þess sem reynt er að bregðast við breyttu rekstrarumhverfi vegna hækkandi eldsneytisverðs og óvissu í efnahagsmálum.
Ekki ljóst hvaða áhrif þessi samdráttur muni hafa á önnur þjónustufyrirtæki í og við Flugstöðina. Né heldur hefur ekkert komið fram sem bendir til frekari uppsagna á næstunni en ljóst er að fólk er uggandi.
„Það er boðaður samdráttur í flugstarfseminni sem væntanlega mun þá koma niður á flugstöðinni allri. Ég er ekki búinn að fá endanlega tölu í minn hóp aðrar en óstaðfestar. Það er ekki endanlega komið í ljós en fyrirtækinu er skylt að hafa við okkur samband og samráð áður en þetta gerist, samkvæmt lögum um hópuppsagnir,“ sagði Guðbrandur Einarsson, formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja.
„Mér finnst þetta staðfesta það sem við höfum verið benda á að atvinnulífið á Suðurnesjum er ekki eins tryggt og margir hafa látið í skína. Við þurfum að styrkja og fjölga undirstöðum,“ sagði Guðbrandur.