2371 einstaklingar útskrifaðir af Háskólabrú
Á föstudaginn 12. ágúst síðastliðinn útskrifuðust 20 nemendur af verk- og raunvísindadeild Háskólabrúar við hátíðlega athöfn sem haldin var í sal Keilis á Ásbrú í Reykjanesbæ. Hafa nú 4543 einstaklingar útskrifast úr námi frá Keili og er heildarfjöldi útskrifaðra af Háskólabrú frá upphafi nú 2371 einstaklingur.
Berglind Kristjánsdóttir, forstöðumaður Háskólabrúar, flutti ávarp og ítrekaði mikilvægi námsleiðarinnar í íslensku samfélagi, í nemendahópnum séu metnaðarfullir einstaklingar sem að eru þakklátir fyrir tækifærið til að ljúka framhaldsmenntun með fullorðnu námsmönnum í sambærilegri stöðu. Að loknu ávarpi afhenti hún útskriftarskírteini og viðurkenningarskjöl ásamt Helgu Lind Sigurbergsdóttur, verkefnastjóra Háskólabrúar.
Dúx Háskólabrúar var Unnar Geir Ægisson og fékk hann peningagjöf frá HS orku sem viðurkenningu fyrir góðan námsárangur. Unnar var með 9,79 í meðaleinkunn sem er næst hæsta einkunn í sögu Háskólabrúar og sú hæsta í sögunni af verk- og raunvísindadeild.
Alexander Grybos, Guðjón Steinn Skúlason og Hlynur Sævarsson hófu athöfnina með frábæru tónlistaratriði. Nanna Kristjana Traustadóttir, framkvæmdastjóri Keilis, flutti ávarp og leiddi athöfnina frá upphafi til enda. Þá flutti Gísli Hólmar Jóhannesson kennari Háskólabrúar ávarp til útskriftarnemanda fyrir hönd starfsfólks og Gréta Kristín Sveinbjörnsdóttir hélt ræðu fyrir hönd útskriftarnemenda.
Opnað verður næst fyrir umsóknir á Háskólabrú í fjarnámi þann 1. september næstkomandi fyrir nám sem hefst í janúar 2023.
Fleiri myndir frá útskriftinni hér.