Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

22 börn á biðlista eftir leikskólaplássi í Vogum
Fimmtudagur 17. nóvember 2011 kl. 14:14

22 börn á biðlista eftir leikskólaplássi í Vogum

Foreldri með barn á leikskólaaldri í Vogum hefur áhyggjur af biðlistum á leikskólann í Vogum og segir 21 barn á biðlista eftir leikskólaplássi. Í bréfi til blaðsins rekur hún aðstæður sínar og vinkonu sinnar sem þarf að sækja leikskóla í öðru sveitarfélagi. Hún bendir á hátt bensínverð og hvort ekki sé hægt að nota eitthvað af fjölmörgum mannlausum húsum í Vogum til að koma upp leikskólastarfsemi. Hún bendir á að börnin nái ekki að kynnast jafnöldrum sínum og að þá séu engar dagmæður á lausu.

Víkurfréttir leituðu til Ingu Sigrúnar Atladóttur, forseta bæjarstjórnar í Vogum, og fengu hana til að svara fyrirspurninni sem kom frá foreldrinu.

Í svari Ingu Sigrúnar segir m.a.:
„Í leikskólanum Suðurvöllum sem er eini leikskólinn í sveitarfélaginu Vogum eru þar 22 börn á biðlista, af þeim er eitt sem er fætt árið 2006 og á að fara í skóla næsta haust. Eitt barn af biðlistanum er með lögheimili í öðru sveitarfélagi og sjö börn eru ekki orðin eins árs. Fjögur börn eru í forgangi, eitt vegna fötlunar og þrjú eiga einstæða móður. Tvítyngd börn eru ekki í forgangi á Suðurvöllum það er ákvörðun fræðslunefndar og staðfest af bæjarstjórn. Fimm börn á biðlista eru tvítyngd, tvö eiga íslenska móður, en þrjú foreldra sem eru með annað móðurmál en íslensku (þau þrjú eru ekki orðin eins árs).

Síðastliðið vor og nú í haust voru tekin 24 börn inn á leikskólann og um mánaðamótin apríl/maí 2011 voru engin börn á biðlista sem gátu þegið pláss (eitt gat ekki þegið það og sex voru ekki orðin 6 mánaða). Elsta umsókn sem bíður nú er frá 30. mars og það barn varð eins árs 24. ágúst 2011.

Í nokkur ár hafa börn verið tekin inn á leikskólann 6 mánaða og því er erfitt að bera saman biðlista í Sveitarfélaginu Vogum og í Reykjavík þar sem börn eru í flestum tilvikum ekki tekin inn svo ung. Það er á misskilningi byggt að bæjarfélagið borgi bara með börnum í 6 mánuði í öðrum sveitarfélögum. Það er þó rétt að eftir 6 mánuði þarf að sækja um aftur og það fer alveg eftir biðlistanum á leikskólanum hvort greiðslur eru framlengdar. Eins og staðan er í dag mun líklega verða samþykkt að greiða með börnum lengur en 6 mánuði.

Það er ekki á döfinni að nýta mannlaus hús til leikskólahalds enda er það ekki húsnæðisskortur sem veldur stærð leikskólans heldur peningaleysi og sú staðreynd að hvert leikskólabarn kostar bæjarfélagið tæpa milljón á ári. Við auglýstum eftir dagforeldrum í sveitarfélagið 1. nóvember sl. því við sáum fram á að margir foreldrar væru að lenda í vandræðum með börn sín. Vonandi ber sú auglýsing árangur. Það er slæmt ef börn þurfa að bíða lengi eftir plássi og það skapar margvísleg vandamál fyrir foreldra og börn þegar til lengri tíma er litið“.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024