2016 börn nýttu sér hvatagreiðslur í Reykjanesbæ
Alls nýttu 2016 börn sér hvatagreiðslur í Reykjanesbæ árið 2022, sem er 58,1% af heildarfjölda barna sex til átján ára í Reykjanesbæ. Nýtingin hefur aukist um 7,2 % frá 2019. Bæjaryfirvöld ákváðu fyrir skemmstu að bæta við hvatagreiðslum fyrir fjögurra til fimm ára börn sem tók gildi 1. janúar síðastliðinn.
Töluverð aukning hefur orðið á nýtingu erlendra barna á hvatagreiðslunum en 9,79% nýttu sér þær árið 2017 samanborið við 28,4% árið 2022. „Við erum á réttri leið en betur má ef duga skal,“ segir í gögnum íþrótta- og tómstundaráðs Reykjanesbæjar.
Þá segir jafnframt. „Saman skulum við hvetja alla til að stunda íþróttir og tómstundir í skipulögðu starfi og hvetja foreldra til að nýta hvatagreiðslur sveitarfélagsins. Óumdeilt er að gildi forvarna er mikið þegar litið er til þátttöku barna í kröftugu íþrótta- og tómstundastarfi í Reykjanesbæ.“