Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

2007-samningar endurskoðaðir í Grindavík
Þriðjudagur 30. nóvember 2010 kl. 10:20

2007-samningar endurskoðaðir í Grindavík


Í íþrótta- og æskulýðsnefnd Grindavíkur eru ræddar breytingar á samningum við íþrótta- og tómstundafélög í bæjarfélaginu en fram að þessu hafa framlög úr bæjarsjóði staðið undir þátttökugjöldum. Foreldrar í Grindavík hafi ekki þurft að  greiða æfingagjöld vegna íþróttaiðkunnar barna sinna á aldrinum 6 – 16 ára. Samningar þess efnis voru undirritaðir árið 2007 og framlengdir á síðasta ári til ársloka 2010.

Benóný Harðarson, fulltrúi S-lista í nefndinni, lagði fram tillögu á síðasta fundi hennar en í tilögunni er því beint til bæjarráðs að frí æfingagjöld haldi sér.
„Eftir samráðsfundi íþrótta- og æskulýðsnefndar með aðalstjórn UMFG og deilda innan UMFG legg ég, undirritaður, til að íþrótta- og æskulýðsnefnd vísi erindinu aftur til bæjarráðs með ósk um að núverandi kerfi um frí æfingagjöld haldi sér, en flestar deildir innan UMFG lögðu á það mikla áherslu, segir í tillögunni.

„Þar sem vitað er að mikill niðurskurður er fyrirhugaður hjá bænum þá teljum við að nefndinni beri að koma með tillögur um breytingar á núverandi fyrirkomulagi, þar sem við erum búin að hlýða á allar deildir innan UMFG og munum við halda okkar vinnu áfram og leita að farsælli lausn,“ segir í bókun sem fulltrúar D-, G- og B-lista lögðu fram á fundi nefndarinnar.

Benóný sagðist í bókun gera sér vel grein fyrir því að skera þyrfti niður hjá bæjarfélaginu. „Undirritaður vill minna á forvarnargildi íþróttanna. Ef núverandi kerfi verður breytt mun brottfall aukast því samkvæmt tölum sem hafa verið lagðar fram á fundi nefndarinnar hefur brottfalli seinkað miðað við núverandi fyrirkomulag,“ segir í bókuninni.

Mynd/Frá golfkennslu í Grindavík.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024