2000 tonnum af brotajárni skipað út í Helguvík
Hringrás ehf. og Reykjanesbær hafa staðið fyrir umhverfisátaki síðustu vikurnar. Safnað hefur verið saman miklu magni af brotajárni og málmum á ýmsum iðnaðarsvæðum í bænum. Meðal annars hefur verið boðið uppá að sækja ýmislegt járnarusl fyrirtækjum að kostnaðarlausu.
Um þarsíðustu helgi fór fram útskipun á um 2.000 tonnum af brotajárni hjá Hringrás frá athafnasvæði þeirra í Iðngörðunum í Helguvík. Með athafnasvæði í Helguvík hefur Hringrás unnið með Reykjanesbæ og fyrirtækjum á svæðinu í því að leysa förgunar og endurvinnslumál á hagkvæman og umhverfisvænan máta, ásamt því að virðing og umgengni við umhverfið hefur breyst til betri vegar.
Þar sem Hringrás vinnur allt hráefni á svæðinu er það flutt beint frá Helguvík í gegnum höfnina og stuðlar því að tekjumyndun og margfeldisáhrifum fyrir svæðið ásamt því að lágmarka akstur, slysahættu og útblástur.
Mynd: Liður í umherfisátakinu var m.a. að rífa niður tankinn við gamla Rammahúsnæðið og bæta þannig og fegra ásýnd og aðkomu bæjarfélagsins. Víkurfréttamynd: Gunnar Einarsson