200 manna ráðstefna og ráðherrafundur í Reykjanesbæ
- stendur yfir í Hljómahöllinni í tvo daga. Hópurinn gistir og fundar í Reykjanesbæ.
Sjö ráðherrar Norðurlandanna og fyldarlið sitja tveggja daga fund en samhliða fer fram ráðstefna um orkumál, atvinnumál og nýsköpun í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ sem hófst í morgun. Norrænu ráðherranefndinni (MR-NER) fylgir 200 manna hópur sem sækir ráðstefnu um nýsköpun í lífhagkerfinu og byggðamál. Stór hluti hópsins gistir á hótelum í Reykjanesbæ.
Keflavíkurmærin, Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, stýrði upphafi fundarins í morgun sem var um orkumál. Meðal þess sem er til umræðu er norræni raforkumarkaðurinn, orkuskipti í samgöngum og á skipum og ný stefna Evrópusambandsins í orku- og loftslagsmálum.
Málefni nýsköpunar og frumkvöðlastarfsemi verða veigamikil í umræðunni sem og einföldun regluverks, ferðaþjónusta og þróun norræns samstarfs til að auka útflutning.
„Það er auðvitað skemmtilegt að geta hýst þessa ráðstefnu og fund hér í Reykjanesbæ. Hér var öll aðstaða til staðar, gisting, fundaraðstaða af bestu gerð og veitingaþjónusta,“ sagði Ragnheiður við upphaf fundarins í morgun við VF.
Ráðherrarnir á fundi í Bergi, einum af af sölum Hljómahallarinnar.