20 flugverndarstarfsmenn endurráðnir í fullt starf
Þjónusta við farþega á Keflavíkurflugvelli er framúrskarandi að mati farþega. Alþjóðasamtök flugvallarekenda, Airports Council International standa fyrir ítarlegustu þjónustukönnun flugfarþega á helstu flugvöllum heims og var Keflavíkurflugvöllur valinn þriðji besta flughöfn í Evrópu á fyrsta ársfjórðungi þessa árs en hann var í fjórða sæti fyrir allt árið í fyrra, fast á hæla Porto-flugvallar í Portúgal, Southampton í Englandi og Zurich í Sviss sem var í fyrsta sæti.
Þjónustukönnun ACI stendur stöðugt yfir á 127 flugvöllum um allan heim. Farþegar svara spurningum um gæði rúmlega 30 þjónustuþátta og niðurstöður eru birtar ársfjórðungslega og heildarárangur árlega.
Keflavíkurflugvöllur hefur um allangt skeið verið í fremstu röð í þjónustukönnunum í Evrópu og munar einungis 0,01 stigi af 5 mögulegum á 1. og 3. sæti í heildarniðurstöðum fyrsta ársfjórðungs þessa árs. Flugvöllurinn var einnig í fyrsta sæti evrópskra flughafna á fjórða ársfjórðungi síðasta árs í nokkrum flokkum, í þriðja sæti í heildaránægju farþega og var valinn áttunda besta flughöfn í heimi í flokki með færri en 5 milljónir farþega.??„Við erum mjög ánægð með þessar niðurstöður. Keflavíkurflugvöllur er í fremstu röð og þjónustan stenst samanburð við það besta sem gerist. Flugstöðin er rúmgóð og þægileg og farþegar hafa ríka öryggistilfinningu. Starfsmenn eiga heiður skilinn fyrir þennan frábæra árangur sem er til mikillar hjálpar í markaðsstarfi okkar. Við horfum björtum augum til framtíðar með bættum efnahag og aukinni ferðamennsku“, segir Björn Óli Hauksson forstjóri Keflavíkurflugvallar ohf.
Stofnefnahagur
Eigið fé Keflavíkurflugvallar ohf. er 6.382 milljónir króna samkvæmt ákvörðun framhaldsstofnfundar félagsins sem haldinn var föstudaginn 24. apríl. Skuldir eru samtals 22,5 milljarðar og skuldir og eigið fé því samtals 28,9 milljarðar króna.
Ríkisendurskoðun hefur tekið saman sérfræðiskýrslu vegna stofnefnahagsreiknings Keflavíkurflugvallar ohf. og kemur þar fram að eigið fé félagsins svari til þeirra verðmæta sem ríkissjóður leggur félaginu til. Eigið fé er annars vegar hlutafé að upphæð fjórir milljarðar króna og hins vegar lögbundinn varasjóður sem er tæpir 2,4 milljarðar króna.
Helstu eignir sem félaginu eru lagðar til eru frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar ohf., Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar, ýmsar fasteignir í eigu ríkisins og síðan afnotaréttur flugbrauta og fasteigna sem voru í umsjá Varnarmálastofnunar.
Starfsmenn endurráðnir
Keflavíkurflugvöllur ohf. hefur hafið undirbúning fyrir sumarið. Félagið hefur endurráðið 20 flugverndarstarfsmenn í fullt starf sem verið hafa í hálfu starfi undanfarna þrjá mánuði sökum verkefnaskorts. Einnig er verið að ráða starfsmenn til sumarafleysinga en þeir verða þó færri en undanfarin ár þar sem útlit er fyrir 20% samdrátt í farþegafjölda í sumar miðað við árið 2008.