2,5 milljarðar á innlánsreikning Spkef
Bæjarráð Reykjanesbæjar samþykkti á bæjarráðsfundi í gær 16.október, að fara í skuldabréfaútgáfu fyrir allt að 2,5 milljarði króna og leggja andvirði inn á innlánsreikning í Sparisjóðnum í Keflavík. Bæjarstjóra, Árna Sigfússyni og fjármálastjóra, Þóreyju Ingveldi Guðmundsdóttur, var falið að undirbúa málið.
Geirmundur Kristinsson, sparisjóðsstjóri Spkef, segir það skipta miklu máli að fá lausafé uppá 2,5 milljarða, það styrki stöðu Sparisjóðsins verulega á þessum tímum. Hann sagði jafnframt að ákveðin ró væri að komast á í Sparisjóðnum og viðskipti farin að ganga þokkalega fyrir sig.
Sparisjóður Keflavíkur styrkir stöðu sína enn frekar ef Grindavík leggur 2 milljarða af fjármunum bæjarins á innlánsreiking Spkef. Samkvæmt fundargerð bæjarstjórnar Grindavíkur var því lýst yfir á fundi 13.október sl. að hún væri tilbúin að færa 2 milljarða króna af fjármunum bæjarins yfir í Sparisjóð Keflavíkur. Það yrði gert um leið og staðfesting af hálfu ríkisvaldsins, um að fjármunirnir yrðu 100% tryggðir í Sparisjóði Keflavíkur, hefði borist.