2-300 stúdentaíbúðir boðnar í háskólasamfélaginu á Keflavíkurflugvelli í haust
Stúdentum sem stunda nám við háskólana í Reykjavík verða boðnar íbúðir í nýja háskólasamfélaginu á Keflavíkurflugvelli. Það er Keilir, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs, sem hyggst bjóða upp á milli 2-300 íbúðir sem áður þjónuðu Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli. Íbúðirnar, sem henta bæði einstaklingum og fjölskyldum, verða tilbúnar í ágúst og leigan hagstæð að mati Runólfs Ágústssonar, framkvæmdastjóra Keilis. Frá þessu var greint í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins.
Í tengslum við stúdentagarðana á Keflavíkurflugvelli veður boðið upp á tryggar og ódýrar samgöngur milli háskólasamfélagsins á Keflavíkurflugvelli og háskólanna í Reykjavík.
Keilir mun sjálfur hefja kennslu á frumgreinadeild strax í haust en byggt verður upp háskólasamfélag á Vellinum með leikskóla, kaffihúsum og veitingahúsum. Kom fram í frétt RUV í kvöld að mörg hundruð stúdenta eru á biðlistum eftir stúdentaíbúðum í Reykjavík.
Að sögn Runólfs verða fyrst teknar í notkun 2-300 íbúðir en eftirspurn látin ráða því hve margar íbúðir verði boðnar til frambúðar.
Opið hús verður á svæðinu um helgina og geta áhugasamir kynnt sér námsframboð og íbúðir.
Keili, Miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs, er ætlað að byggja upp háskólasamfélag í gömlu herstöðinni og leiða þar saman fyrirtæki og háskóla, þekkingu og fjármagn, hvoru tveggja til nýsköpunar og útrásar í íslenskum menntamálum.
Enskt heiti félagsins er Keilir, Atlantic Center of Exellence. Það vísar til stöðu Íslands í alþjóðavæddum heimi og þess markmiðs félagsins að byggja upp þekkingu, kennslu og rannsóknir á háskólastigi í alþjóðlegu samhengi. Samkvæmt samstarfssamningi félagsins og Háskóla Íslands munu aðilar sameiginlega byggja upp alþjóðlegt háskólanám á Keflavíkurflugvelli í þeim tilgangi að laða til Íslands erlenda kennara og háskólanema. Jafnframt munu Keilir og Háskóli Íslands standa sameiginlega að þróun háskólanáms og kennslu, sérstaklega á sviðum orkuvísinda og umhverfismála, jarðvísinda, sjálfbærrar þróunar, verkfræði, ferðamála, lífríkis hafsins, norðurslóðarrannsókna, samgöngumála, alþjóða- og öryggismála.
Háskólanám á vegum félagsins verður vottað af Háskóla Íslands samkvæmt samstarfssamningnum í samræmi við gæðakröfur HÍ.
Heildarhlutafé félagsins er rúmar 300 milljónir króna en meðal hluthafa eru Háskóli Íslands og lykilfyrirtæki í útrás íslensks atvinnulífs erlendis, ásamt fyrirtækjum og félögum á Suðurnesjum. Um er að ræða stærstu fjárfestingu einkaaðila í íslensku menntakerfi frá upphafi.
Runólfur Ágústsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Keilis, en formaður stjórnar félagsins er Árni Sigfússon.
Myndir: Íbúðarhúsnæði á Keflavíkurflugvelli sem á næstu misserum fær það hlutverk að hýsa stúdenta sem vilja stunda nám á Keflavíkurflugvelli eða við háskólana í Reykjavík. Myndirnar voru teknar í síðustu viku. Ljósmyndir: Hilmar Bragi Bárðarson
.