182 útskrifaðir frá Keili
Keilir útskrifaði 182 nemendur við hátíðlega athöfn í Andrews Theater s.l. föstudag en þá hafa alls 1.250 fengið brautskráningu frá Keili frá stofnun skólans.
90 nemendur útskrifuðust frá Háskólabrú og þar af höfðu 30 þeirra lokið Menntastoðum sem grunni að Háskólabrú. 70 ÍAK einkaþjálfarar fengu brautskráningu og 21 nemandi úr flugtengdu námi. Valdimar Guðmundsson og Björgvin Baldursson fluttu þrenn lög við athöfnina og enduðu á laginu „Vegir liggja til allra átta“ sem átti svo sannarlega vel við.
Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri hélt hátíðarræðu í tilefni dagsins og vék hann m.a. að spurningunni um gildi menntunar. Hvað kunnið þið núna? spurði hann útskrifaða. Á þar ekki við það sem stendur á skírteini ykkar. Smiður telst ekki alvöru smiður þó hann fái moðinn í hendur. Hvernig hann notar verkfærin dæmir gæði hans sem smiðs. Þannig má segja að margir þeirra einstaklinga sem sagðir eru hafa keyrt samfélag okkar í kaf hampi fallegum prófskírteinum. Notuðu þeir menntun sína til góðs? Viljum við fólk með slíka menntun? Frekar viljum við fólk eins og ykkur sem kann að setja sér göfug markmið og er tilbúið að fylgja þeim eftir. Þess vegna er þetta ykkar hátíð.
Að undanförnu hefur færst í vöxt að fólk lætur ýmislegt miður gott flakka um fólk og við fólk. Ekki síst á hinum ýmsu samskiptamiðlum. Orð eru dýr og miður er hvernig of margir grípa til ruddalegra orða í spjalli. Munum orð Einars Ben. um aðgát skuli höfð í nærveru sálar. Orð eru nefnilega dýr. Eitt augnakast sem aldrei verður tekið til baka. Níð undir dulnefni á opinberri síðu er eins og að vega úr launsátri og hefur aldrei þótt mannsdómserki. Ruddamennska í umfjöllun og orðaskaki er uppspretta hins illa. Við trúum því að útskrifaðir hafi tileinkað sér önnur gildi, s.s. virðingu, tillitssemi og auðmýkt. Í þeirri vissu munum við útskrifa ykkur með stakri ánægju og stolti.
Verðlaun voru veitt fyrir framúrskarandi námsárangur. Hildur Hrólfsdóttir dúxaði úr ÍAK einkaþjálfun með 9,63 í meðaleinkunn, Kristjana Þórarinsdóttir hlaut í 9,02 úr Háskólabrú, Sigurður Jónsson með 8,83 úr flugumferðarstjórn, Árni Snær Brynjólfsson 8,81 ATPL og Líney Þóra Bryndísardóttir með 9,23 úr flugþjónustu.
VF-Myndir: Hilmar Bragi