Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 20. desember 2000 kl. 04:34

18 ára fangelsi fyrir morð

Rúnari Bjarka Ríkharðssyni hefur verið dæmdur í 18 ára fangelsi fyrir morðið á Áslaugu Óladóttur í apríl á þessu ári. Dómur var upp kveðinn í héraðsdómi Reykjaness í morgun og ef hann verður staðfestur í hæstarétti þá er hann sá næst þyngsti sem kveðinn hefur verið upp í sögu lýðveldisins.

Þyngsti dómurinn 20 ár
Héraðsdómur hefur dæmt tvo menn í ævilangt fangelsi, þá Sævar Cieselski og Kristján Viðar Viðarsson fyrir meinta aðild þeirra að hvarfi og drápi á þeim Guðmundi Einarssyni og Geirfinni Einarssyni. Hæstiréttur breytti þessu í 17 ára fangelsisdóm yfir Sævari og 16 ára dóm yfir Kristjáni Viðari.
Þórður Jóhann Eyþórsson var dæmdur í 20 ára fangelsi af héraðsdómi fyrir ítrekað manndráp og hæstiréttur staðfesti þann dóm árið 1994. Þórður var á reynslulausn frá afplánun dóms vegna manndráps þegar hann framdi annað morð, og taldist því hafa rofið skilorð, og því bættust fjögur ár ofan á sextán ára dóm fyrir morðið sjálft.
Þegar mál Þórðar Jóhanns var tekið fyrir í Hæstarétti á sínum tíma, áttu lögfróðir menn allt eins von á að þá yrði brotið í blað í sögu réttarins og gripið til ákvæðisins um ævilangt fangelsi í fyrsta sinn í nútíma réttarsögu, en það fór sem sagt á annan veg.
Dómurinn yfir Rúnari Bjarka er sá fjórði þyngsti sem kveðinn hefur verið upp í héraðsdómi hér á landi. Málsaðilar hafa fjögurra vikna frest til að áfrýja dómnum. Staðfesti hæstiréttur dóminn, verður hann sá næst þyngsti í sögunni.

Rúmur refsirammi
Samkvæmt 34. grein hegningarlaga skulu menn, sem sekir eru fundnir um manndráp, dæmdir til fangelsisvistar sem ekki er skemmri en fimm ár, og hámarksrefsing er ævilangt fangelsi. Fari dómarar þá leið, að tiltaka árafjölda fremur en dæma þá í ævilangt fangelsi, er þeim þó ekki heimilt að dæma menn til lengri fangelsisvistar en 16 ár.
Dómurum gefst samt nokkuð svigrúm til að ákvarða mönnum svokallaðan refsiauka umfram sextán árin ef þeim þykir tilefni til, þó aldrei umfram fjögur ár. Kjósi dómarar ekki að dæma menn til ævilangrar fangelsisdvalar, geta þeir því ekki dæmt menn til lengri dvalar en sem nemur 20 árum.
Í tilfellum þeirra Þórðar Jóhanns og Rúnars Bjarka voru brotin t.d. fleiri en eitt og öll alvarleg og þá leyfa lögin að þyngja refsinguna í samræmi við það. Þess vegna voru þeir dæmdir í 18 og 20 ára fangelsi, en eins og fyrr segir þá hefur hæstiréttur ekki staðfest dóminn yfir Rúnari Bjarka.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024