17 ára taka störf frá 14 ára í sumar
Ungmennaráð Reykjanesbæjar mótmælir breytingum í atvinnumálum fyrir ungmenni.
Í sumar mun hópur 17 ára nemenda eiga kost á vinnu í allt að sex vikur hjá Vinnuskóla Reykjanesbæjar. Nemendur 8. bekkjar munu í staðinn ekki eiga kost á vinnu hjá bænum. Nemendur munu heldur ekki vinna á föstudögum líkt og síðustu sumur. Framkvæmdastjóri umhverfis- og skipulagssviðs segir að með breytingunni eigi að brúa bil 17 ára ungmenna með vinnu vegna krafna víða um 18 ára lágmarksaldur. Varaformaður Ungmennaráðs Reykjanesbæjar segir að koma þurfi til móts við 8. bekkinga á einhvern hátt í staðinn.
„Á hverju vori rignir inn fyrirspurnum frá foreldrum um hvort 17 ára ungmenni geti fengið vinnu hjá Reykjanesbæ. Þau lenda dálítið á milli því þau fá ekki vinnu í flugstöðinni og ekki í sjoppum vegna laga um tóbakssölu,“ segir Guðlaugur H. Sigurjónsson, framkvæmdastjóri umhverfis- og skipulagssviðs. Reykjanesbær hafi sett af stað ýmis átök í atvinnumálum en nú eigi að bjóða þeim að sækja um vinnu hjá Vinnuskólanum og skera í staðinn niður atvinnumöguleika 8. bekkinga. „Þeir voru bara í hálfan dag í þrjár vikur. Svo fylgdi því að við réðum inn flokkstjóra til að stýra þeim og því fylgdi kostnaður sem við spörum í leiðinni.“ Garðyrkjudeildin sem sett hafi verið á laggirnar fyrir nokkrum árum muni koma inn í þetta og verði í raun auknir möguleikar á fjölbreyttari störfum. „Við erum með ákveðna fjárhagsáætlun og þurfum væntanlega að setja eitthvað þak á fjölda ráðninga en það á eftir að útfæra það. Hingað til hefur unga fólkið fengið vinnu sem hefur sótt um,“ segir Guðlaugur en 400-450 manns hafa sótt um á hverju sumri og tímabilin munu áfram verða tvö. „Það er lítið eftir handa þessum krökkum því fiskvinnslufyrirtækin eru ekki til staðar og flugstöðin ræður bara yngst 18 ára, með bílpróf og hreint sakavottorð. Þannig að þeir sem hafa misstigið sig eiga ekki séns.“
Vilja úrræði í staðinn fyrir 8. bekkinga
Okkur finnst þetta ekki vera sniðug hugmynd vegna þess að það er miklu meira um að 17 ára geti fengið vinnu á öðrum stöðum eins og t.d. í verslunum. 14 ára krakkar geta ekki sótt um slíka vinnu. Litli bróðir minn er í 8. bekk og hann var, eins og margir aðrir, orðinn spenntur með að fá vinnu í sumar; fá að gera eitthvað en nú er búið að taka það af honum,“ segir Thelma Lind Karlsdóttir, varaformaður Ungmennaráðs Reykjanesbæjar, sem fer fram á úrræði í staðinn fyrir 8. bekkinga. „Kannski gæti bærinn boðið þeim vinnu í tómstunda- eða íþróttastarfi. Ég held líka að 17 ára krakkar muni ekki sækjast mikið eftir störfum hjá Vinnuskólanum, þ.e.a.s. ef í boði verða störf eins og 8. - 10. bekkingum hafa fengið. Þau vilja örugglega líka fá vinnu allt sumarið, en það er ekki í boði hjá Vinnuskólanum. Ég hefði ekki haft áhuga á starfi þarna ef það hefði verið í boði þegar ég var sautján,“ segir Thelma Lind.