17 ára ökuníðingur á ofsahraða
För sautján ára pilts, með eins mánaðar gamalt ökuskírteini, var stöðvuð í nótt af Lögreglunni á Suðurnesjum eftir að hann hafði mælst á 212 kílómetra hraða. Tilræðismaðurinn var stöðvaður á Reykjanesbraut, skammt frá Reykjanesbæ og var hann sviptur ökuréttindum umsvifalaust. Í för með honum var 16 ára gamall farþegi.
Samkvæmt því sem fram kemur á visi.is var ökuníðingurinn fyrst mældur á 130 km harða á Reykjanesbraut í Hafnarfirði. Sinnti hann ekki stöðvunarmerkjum lögreglu og jók hraðann til muna.
Hóf lögreglan þá eftirför og gerði lögreglunni í Keflavík viðvart og voru þrír lögreglubílar sendir af stað þaðan til móts við tilræðismanninn.
Eftir að hafa hundsað stöðvunarmerki þess fyrsta nam hann loks staðar þegar hann sá tvo lögreglubíla til viðbótar koma á móti sér og tvo á eftir. Þetta er einhver mesti hraði sem mælst hefur á bíl hér á landi til þessa.