16 ára fangelsi fyrir manndráp
Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt Ellert Sævarsson í 16 ára fangelsi fyrir að verða Hauki Sigurðssyni að bana í Reykjanesbæ í maí síðastliðnum. Ellert, sem er 31 árs, játaði að hafa sparkað í höfuð og líkama Hauks og kastað kantsteini í höfuð hans. Af því hlutust miklir höfuðáverkar sem voru banamein Hauks, samkvæmt krufningsskýrslu. Auk fangelsisdómsins var Ellert dæmdur til að greiða ekkju mannsins, sem hann varð að bana, rúmar 3 milljónir króna í bætur og 2,3 milljónir króna í sakarkostnað.
Dómurinn segir enga ástæðu til að draga sakhæfi Ellerts í efa. Hann hafi ekki getað skýrt með viðhlítandi hætti af hverju hann veittist með svo harkalegum hætti að Hauki og hafi borið við minnisleysi um aðdraganda árásarinnar.
„Árás ákærða var ofsafengin og hrottaleg og hlaut ákærða að vera ljóst að slík atlaga myndi leiða þann sem fyrir henni varð til dauða. Þykir háttsemi ákærða réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Við mat á refsingu verður litið til þess að ákærði hafði ásetning til þess að vinna slíkt tjón sem raun varð á og koma því engar refsilækkandi ástæður til álita," segir meðal annars í niðurstöðu dómsins.
VFmynd/Hilmar - Lögreglan á vettvangi morðsins í maí síðastliðnum.