Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Miðvikudagur 29. janúar 2003 kl. 11:46

15 ára stúlka fær fangelsisdóm

Fimmtán ára stúlka var dæmd í 40 daga fangelsi fyrir eignaspjöll og þjófnað í tveimur afbrotum í Keflavík í fyrrasumar. Ákvörðun um refsingu þriggja samverkamanna hennar, á aldrinum 15-17 ára, var frestað.
Ungmennin fjögur, þrjár stúlkur og einn piltur, játuðu brot sín skýlaust. Saman brutust þau fjögur í ágúst í fyrrasumar inn í Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og ollu skemmdum og eyðilögðu tölvuprentara auk þess að stela tölvulyklaborði, tölvumús og segulbandsupptökutæki.

Stúlkan sem dæmd var braust ásamt annarri 15 ára stúlku inn í söluturn í Keflavík að nóttu til í október og stal 3.000 krónum í seðlum auk skiptimyntar og 80 pökkum af sígarettum.

Við refsiákvörðun var höfð hliðsjón af því að ákærðu voru mörg saman er þau frömdu brotin og að seinna innbrotið var fyrirfram skipulagt. Á hinn bóginn var litið til ungs aldurs fjórmenninganna og til þess að ekki var mikið tjón af brotunum.

Var refsiákvörðun í máli þriggja frestað um tvö ár þar sem þau hafa ekki áður gerst sek um auðgunarbrot og kemur ekki til hennar haldi þau almennt skilorð.

Sömuleiðis var fullnustu refsingar stúlkunnar sem dóminn hlaut frestað og fellur hún einnig niður að liðnum tveimur árum standist hún skilorðið.

Bótakrafa Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja í málinu þótti ekki studd nægilegum gögnum til þess að lagður yrði á hana dómur gegn mótmælum og var henni því vísað frá dómi, segir á vef mbl.is.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024