1400 manns á Vallarheiði
Reiknað er með að um 1400 manns muni búa og starfa á Vallarheiði innan skamms en þar búa nú 1200 manns. Á fjórða tug fyrirtækja eru nú starfandi á svæðinu. Breytingin hefur því verið mikil frá ársbyrjun 2007 þegar tómleikinn einn réði ríkjum á svæðinu eftir brotthvarf varnarliðsins. Við það töpuðust um 900 störf. Efnahagleg áhrif þeirra verkefna sem þegar eru farin af stað á svæðinu hlaupa á tugum milljarða. Þetta kom fram á aðalfundi Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, sem haldin var í gær.
„Staðan er sú að nú rís ört vaxandi þekkingarsamfélag þar sem sterkir samstarfsaðilar hafa komið að málum í samstarfi við Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar. Telur stjórn Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar að umbreytingarferlið hafa gengið vonum framar og búið sé að skapa sterkan grundvöll til frekari uppbyggingar. Til marks um það er Keilir – miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs sem er í óða önn að byggja upp háskólastarfsemi til framtíðar á svæðinu, Base vinnur að uppbyggingu Tæknivalla þar sem fjölbreytt starfsemi hefur skotið rótum og Verne – vistvænt, rafrænt gagnaver vinnur að verkefni sem mun geta hýst tölvubúnað, netþjóna og gagnageymslur fyrir alþjóðlega stórnotendur. Efnahagleg áhrif þeirra verkefna sem þegar eru farin af stað hlaupa á tugum milljarða. Mörg önnur verkefni eru á teikniborðinu svo sem heilsutengd uppbygging og fleiri hugmyndir í þróun,“ segir á heimasíðu félagsins.
Hagnaður Þróunarfélagsins nam á árinu 131 milljón króna eftir skatta. Heildareignir voru bókfærðar á 314 milljónir króna. Skuldir námu 252 milljónum króna. Eigið fé félagsins nam 62 milljónum króna í árslok.
Ný stjórn var kjörin á fundinum en hana skipa: Páll Sigurjónsson, Árni Sigfússon og Reynir Ólafsson. Í varastjórn eiga sæti: Hildur Árnadóttir, Sigurður Valur Ásbjarnarson og Sveindís Valdimarsdóttir. Framkvæmdastjóri félagsins er Kjartan Þór Eiríksson og starfsmenn þess í heildina 5 talsins.