Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

130 börn af erlendum uppruna í grunnskólum Reykjanesbæjar
Miðvikudagur 19. september 2007 kl. 15:02

130 börn af erlendum uppruna í grunnskólum Reykjanesbæjar

-60 börn af 20 þjóðernum í Fjölþjóðadeild Myllubakkaskóla-

Um það bil 130 börn af erlendu bergi brotin eru nú í grunnskólum Reykjanesbæjar og hefur fjölgað ört á síðustu misserum. Af þessum fjölda eru 43 börn nýkomin til landsins.
Í Myllubakkaskóla hefur verið starfrækt sérstök Fjölþjóðadeild síðustu ár þar sem þungamiðja starfsins er íslenskukennsla. Í dag eru yfir 60 börn af 20 þjóðernum í Fjölþjóðadeildinni, sem getur ekki tekið við meiri fjölda þar sem hana skortir bæði stærra húsnæði og fleira starfsfólk. Meirihluti barnanna kemur frá Póllandi.

Málefni innflytjenda komu til umræðu á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ í gær þegar fundargerðir Fræðsluráðs voru teknar fyrir.  Sveindís Valdimarsdóttir, bæjarfulltrúi A-lista, lagði fram fyrirspurn um stöðu þessara mála hjá Reykjanesbæ, spurði m.a. hvort fólk hefði séð þetta fyrir og hvaða áform væri uppi um að mæta þessari þróun.


Í svörum Garðars K. Vilhjálmasonar, formanns Fræðsluráðs, kom fram að þessu snögga fjölgun nýbúa  hefði ekki sést fyrir en við henni yrði reynt að bregðast skjótt og örugglega. Garðar nefndi m.a. að í bígerð væri að ráða pólsku- og íslenskumælandi manneskju til starfa sem yrði tengill fyrir þennan hóp og myndi starfa á fræðsluskrifstofunni.


Árni Sigfússon, bæjarstjóri og formaður Fjölskyldu- og félagsmálaráðs, gat þess að nýlega hefði verið skipaður vinnuhópur sem hefði það verkefni að fara fyrir þessi mál í víðu samhengi og finna hvar snertifletirnir væru við innflytjendur þannig að hægt yrðu að aðstoða þá sem best.

Mynd: Frá þemadögum í Myllubakkaskóla síðastliðinn vetur, þar sem fjallað var um alþjóðasamfélagið. VF-mynd: elg.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024